Viðskipti innlent

Skotsilfur Markaðarins: Fyrrverandi bankastjóri kaupir í Solid Clouds

Ritstjórn Markaðarins skrifar
Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingarbanka, hefur keypt sig inn í tölvuleikjaframleiðandann Solid Clouds á Eiðistorgi og settist hann í stjórn félagsins síðasta sumar.

Þar voru fyrir menn á borð við Sigurð Arnljótsson, fjárfestingastjóra hjá SA Framtaki GP ehf., og Friðrik Skúlason, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Frisk Software. Solid Clouds er oft kallað litla CCP en fyrirtækið vinnur að þróun tölvuleiksins Starborne.

Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingabanka, keypti sig inn í tölvuleikjaframleiðandann Solid Clouds í fyrra.
Aftur inn í Magasin

Athygli vakti þegar tilkynnt var í síðustu viku að veitingastaðurinn Gló yrði opnaður í Magasin Du Nord í Kaupmannahöfn. Danska stórverslunin var mjög áberandi á síðum íslensku blaðanna á árunum fyrir hrun eftir að íslenskir fjárfestar, þar á meðal Birgir Þór Bieltvedt, keyptu 87 prósenta hlut í henni árið 2004.

Straumur leysti 25 prósenta hlut B2B Holding ehf., fjárfestingarfélags Birgis, í Magasin til sín í hruninu. Birgir, sem er búsettur í Danmörku, er hluthafi í Gló og getur því fljótlega aftur haft áhrif á hvað er á boðstólum í Magasíninu.

Einar Pálmi til Virðingar

Einar Pálmi Sigmundsson tók til starfa hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu í byrjun þessa árs sem fjárfestingastjóri á framtakssjóðasviði félagsins.

Einar Pálmi á að baki meira en tuttugu ára reynslu á fjármálamarkaði, síðast sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar HF Verðbréfa. Hann þurfti hins vegar að láta af því starfi í tengslum við ákæru sem hann hlaut í hinu svonefnda markaðsnotkunarmáli Kaupþings en Einar Pálmi hafði verið forstöðumaður eigin viðskipta bankans.

Einar Pálmi hlaut tveggja ára dóm, samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar, en hann var hins vegar skilorðsbundinn.

Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.


Tengdar fréttir

Gló opnar í Kaupmannahöfn

Nýr veitingastaður Gló verður opnaður í Magasin du Nord í Kaupmannahöfn í júní næstkomandi. Staðurinn verður stærsti veitingastaðurinn í dönsku stórversluninni og verður í matarkjallara hennar. Um er að ræða fimmta Gló-staðinn og þann fyrsta utan Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×