Handbolti

Morkunas fer frá Haukum og til Cocks í Finnlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giedrius Morkunas.
Giedrius Morkunas. Vísir/Vilhelm
Giedrius Morkunas mun yfirgefa Hauka í vor en þessi snjalli markvörður hefur spilað með Hafnarfjarðarliðinu frá árinu 2012.

Giedrius Morkunas hefur gert samning við finnska liðið Riihimäki Cocks en það lið þjálfar einmitt landi hans Gintaras Savukynas sem lék á sínum tíma hér heima á Íslandi.

Þorgeir Haraldsson, formaður Knattspyrnudeildar Hauka, staðfesti þetta við íþróttadeild 365 í kvöld.

Haukar hafa samið við landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Pál Gústavsson sem mun koma til félagsins í sumar.  Hjá liðinu er einnig hinn stórefnilegi markvörður Grétar Ari Guðjónsson. Það mátti því búast við að Giedrius Morkunas væri að hugsa sér til hreyfings.

Giedrius Morkunas hefur orðið Íslandsmeistari með Haukum undanfarin tvö tímabil en hann hefur einnið orðið bikarmeistari með liðinu.

Riihimäki Cocks hefur orðið finnskur meistari undanfarin fjögur ár og varð bikarmeistari þriðja árið í röð á dögunum. Tveir af markvörðum liðsins á þessu tímabili kom frá Rússlandi en sá þriðji er heimamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×