Handbolti

Guðmundur og Danir úr leik á HM

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Guðmundur á hliðarlínunni í dag.
Guðmundur á hliðarlínunni í dag. vísir/getty
Ungverjaland gerði sér lítið fyrir og sló Ólympíumeistara Danmerkur úr keppni á heimsmeistaramótinu í handbolta í Frakklandi í dag.

Ungverjaland vann leikinn 27-25 eftir að hafa verið 13-12 yfir í hálfleik.

Danmörk þótti mun sigurstranglegri fyrir leikinn en liðið vann D-riðil. Ungverjaland hafnaði í fjórða sæti C-riðils.

Ungverjaland var með yfirhöndina nánast allan leikinn þar til Danmörk jafnaði þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Ungverjaland skoraði þrjú af fjórum síðustu mörkum leiksins og tryggðu sér sæti í 8 liða úrslitum þar sem liðið mætir Noregi.

Guðmundur Guðmundsson sem gerði Danmörku að Ólmympíumeisturum síðasta sumar þarf því að sætta sig við tap gegn Ungverjalandi í síðasta leik sínum sem landsliðsþjálfari Danmerkur, líkt og hann gerði í síðasta leik sínum sem landsliðsþjálfari Íslands á Ólympíuleikunum 2012.

Mate Lekai var markahæstur í liði Ungverja með 6 mörk. Zsolt Balogh, Iman Jamali og Adam Juhasz skoruðu 4 mörk hver fyrir Ungverjaland.

Mikkel Hansen skoraði 8 mörk í leiknum, sjö þeirra í fyrri hálfleik. Lasse Svan skoraði 6 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×