Handbolti

Einar Þorvarðar um hugmynd Kristjáns: Þetta væri röng ákvörðun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi sagði Kristján Arason, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, að kominn væri tími á að reynslumestu menn íslenska liðsins síðustu ár; Guðjón Valur Sigurðsson, Arnór Atlason, Ásgeir Örn Hallgrímsson og Kári Kristján Kristjánsson, yrðu settir til hliðar og yngri leikmönnum hleypt að strax.

„Mér finnst umræðan fara ansi hratt í þá áttina að setja inn 18 ára gamla leikmenn í karlalandsliðið. Það yrði röng ákvörðun myndi ég segja. Við erum með mikið af verkefnum fyrir unglingalandsliðin okkar, meðal annars er U21 árs landsliðið að fara í lokakeppni HM í Alsír í sumar,“ sagði Einar Þorvarðason, framkvæmdastjóri HSÍ, við íþróttadeild um þessa hugmynd Kristjáns.

„Þar eru margir leikmenn sem fá verkefni, meðal annars strákar sem voru í A-landsliðinu í Frakklandi. Nítján ára landsliðið okkar verður á úrslitamóti HM í Georgíu í ágúst og svo er 17 ára landsliðið á Ólympíuhátíð æskunnar þar sem átta bestu lið heims taka þátt. Það er því mikið að gera hjá þessum ungu leikmönnum.“

Fjórir menn stigu sín fyrstu skref á stórmóti á HM í Frakklandi en Einar Þorvarðarson vill halda liðinu óbreyttu í næstu verkefnum.

„Mín skoðun er sú að þessir leikmenn þurfa að þroskast í sínum liðum. Það tókst vel núna að taka þessa þrjá ungu leikmenn inn. Nú erum við í forkeppni fyrir EM 2018 í Króatíu. Við eigum eftir fjóra leiki þar og næstu tveir leikir í þeirri keppni verða á móti Makedóníu í byrjun maí. Ég er á því að þetta lið sem spilaði á HM eigi að klára þetta verkefni,“ sagði Einar Þorvarðarson.

Alla fréttina má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.