Viðskipti innlent

Glitnistoppar hafa tryggt sér allt að 1.500 milljóna króna bónus

Hörður Ægisson skrifar
Fyrirséð er að bónusar til handa stjórnarmönnum og öðrum helstu lykilstarfsmönnum Glitnis eiga eftir að verða enn meiri samhliða því að frekari útgreiðslur til skuldabréfaeigenda félagsins eru væntanlegar síðar á árinu.      fréttablaðið/GVA
Fyrirséð er að bónusar til handa stjórnarmönnum og öðrum helstu lykilstarfsmönnum Glitnis eiga eftir að verða enn meiri samhliða því að frekari útgreiðslur til skuldabréfaeigenda félagsins eru væntanlegar síðar á árinu. fréttablaðið/GVA
Þrír stjórnarmenn Glitnis HoldCo, ásamt nokkrum íslenskum lykilstarfsmönnum eignarhaldsfélagsins hér á landi, hafa nú þegar tryggt sér samanlagt á bilinu um 875 til 1.525 milljónir í bónus. Þetta varð ljóst eftir að Glitnir innti af hendi tæplega 99 milljóna evra greiðslu til skuldabréfaeigenda þann 19. janúar síðastliðinn sem varð til þess að virkja umfangsmikið bónuskerfi sem var samþykkt á hluthafafundi í mars í fyrra. Fyrirséð er að bónusgreiðslur til handa stjórnarmönnum og öðrum helstu stjórnendum Glitnis eiga hins vegar eftir að verða enn meiri samhliða því að frekari útgreiðslur til skuldabréfaeigenda félagsins eru væntanlegar síðar á árinu.

Samkomulag sem stjórn Glitnis gerði fyrir skemmstu við fyrrverandi meðlimi slitastjórnar bankans, þar sem 68 milljóna evra skaðleysissjóður var lagður niður gegn meðal annars 640 milljóna eingreiðslu til Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar, þýðir að örfáir stjórnendur félagsins eiga núna rétt á háum bónusgreiðslum. Ef ekki hefði komið til samkomulagsins hefðu þeir þurft að bíða lengur eftir því að fá greiddan bónus í sinn hlut – og hann hefði sömuleiðis verið umtalsvert lægri.

Þrír stjórnarmenn fá mest

Íslenskir stjórnendur Glitnis, sem teljast vera í hópi lykilstarfsmanna félagsins, eiga þannig tilkall til þess að fá rúmlega 26 prósent af bónuspottinum. Sú fjárhæð nemur í dag að minnsta kosti á bilinu samtals um 230 til 400 milljónum króna. Í skilmálum bónuskerfisins (e. Long Term Incentive Plan, LTIP), sem Markaðurinn hefur undir höndum, er ekki tilgreint sérstaklega hvaða starfsmenn þar er um að ræða.

Samkvæmt heimildum Markaðarins nær þessi hluti bónuskerfisins hins vegar fyrst og fremst til Ingólfs Haukssonar, framkvæmdastjóra Glitnis, Snorra Arnars Viðarssonar, forstöðumanns eignastýringar félagsins, og Ragnars Björgvinssonar, aðallögfræðings Glitnis. Þeir hafa allir starfað hjá Glitni frá því að slitameðferð gamla bankans hófst formlega í apríl 2009. Ef gengið er út frá því að fyrirhugaðar bónusgreiðslur skiptist bróðurlega á milli þessara helstu stjórnenda félagsins á Íslandi þá hafa þeir nú þegar hver um sig tryggt sér að meðaltali á bilinu um 76 til 132 milljónir á mann í bónus.

Bónusgreiðslur Glitnis munu aftur á móti að stærstum hluta, eða sem nemur 75,9 prósentum af heildarfjárhæðinni, fara til þriggja manna stjórnar félagsins en hún er alfarið skipuð erlendum ríkisborgurum. Þeir sem sitja í stjórninni eru Bretinn Mike Wheeler,­ sem er jafnframt stjórnarformaður, Daninn Steen Parsholt og Norðmaðurinn Tom Grøndahl. 

Samkvæmt skilmálum bónuskerfisins skiptast bónusgreiðslur sem falla í skaut stjórnarmanna Glitnis nánast jafnt á milli þeirra – stjórnarformaðurinn fær lítillega meira í sinn hlut – sem þýðir að þeir hafa núna að meðaltali áunnið sér á bilinu 216 til 376 milljónir á mann í bónus. Þær greiðslur koma til viðbótar við rífleg stjórnarlaun en stjórnarformaður Glitnis fær 500 þúsund evrur, jafnvirði 60 milljóna króna, í þóknun á ári fyrir þau störf á meðan aðrir stjórnarmenn fá 350 þúsund evrur.

Opnaði á bónusgreiðslur

Stjórnarmenn og helstu stjórnendur Glitnis hafa áunnið sér þessar bónusgreiðslur aðeins innan við ári eftir að ný stjórn var kjörin til að stýra eignarhaldsfélaginu í kjölfar þess að slitabú bankans lauk nauðasamningum í árslok 2015. Það hefði hins vegar ekki verið raunin sem fyrr segir ef ekki hefði komið til samkomulags sem stjórn Glitnis hafði frumkvæði að því að gera við Steinunni og Pál, sem skipuðu slitastjórn bankans fram að nauðasamningum, og var samþykkt á hluthafafundi félagsins 19. desember í fyrra. Samkvæmt samkomulaginu fengu þau Steinunn og Páll eingreiðslu upp á samtals 5,3 milljónir evra, jafnvirði um 640 milljóna króna, gegn því að sérstakur sjóður að fjárhæð 68 milljónir evra, sem var settur á fót fyrir um ári og átti að tryggja skaðleysi þeirra gagnvart mögulegum málsóknum kröfuhafa til ársins 2025, var lagður niður.

Með þessu móti gat stjórn félagsins hraðað endurheimtum með því að losa um stærstan hluta þeirra fjármuna sem voru bundnir í skaðleysissjóðnum, eða um 60 milljónir evra, og greitt þá út til skuldabréfaeigenda Glitnis. Auk þess að fá greiðslu í peningum, sem nemur um 320 milljónum á mann, þá gerir samkomulagið jafnframt ráð fyrir að Glitnir útvegi þeim Steinunni og Páli tíu milljóna evra tryggingu sem gildir til næstu tíu ára. Sú trygging á að standa straum af ýmsum kostnaði sem gæti að öðrum kosti fallið á þau, með sambærilegum hætti og skaðleysissjóðurinn hefði gert, vegna mögulegra málshöfðana í tengslum við fyrri ákvarðanir og störf slitastjórnar Glitnis.

Þá felst einnig í samkomulaginu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að Glitnir veiti Steinunni og Páli skaðleysisábyrgð sem fellur úr gildi 11. janúar árið 2020. Sú skaðleysisábyrgð er hins vegar að hámarki 3,53 milljónir evra, jafnvirði um 430 milljóna króna, og aðeins verður hægt að ganga á hana eftir að fyrrverandi meðlimir slitastjórnar hafa nýtt að fullu tíu milljóna evra trygginguna sem Glitnir mun útvega þeim. Ef engar málsóknir verða höfðaðar gegn Steinunni og Páli á næstu þremur árum þá munu þau fá til viðbótar 590 þúsund evra eingreiðslu, eða sem nemur um 72 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi, eftir að skaðleysisábyrgð Glitnis rennur úr gildi í ársbyrjun 2020.

Hvati að selja eignir hratt

Markmiðið með bónuskerfinu er að búa til hvata fyrir æðstu stjórnendur Glitnis í því skyni að hámarka virði óseldra eigna félagsins – heildareignir Glitnis námu 1.449 milljónum evra í ársbyrjun 2016 – og þar með endurheimtur skuldabréfaeigenda. Þannig skiptir ekki síst máli, samkvæmt skilmálum kerfisins, fyrir heildarfjárhæð bónuspottsins hversu hratt stjórnendum Glitnis tekst að umbreyta eignum, meðal annars lánasöfnum og eignarhlutum í fyrirtækjum, í reiðufé og greiða út til kröfuhafa. Því hraðar sem greiðslur berast til eigenda Glitnis, því meiri bónus fellur í skaut stjórnenda félagsins. Hugsunin að baki bónuskerfinu er því með öðrum orðum sú að lykilstarfsmenn hafi hagsmuni af því að selja eignir sem fyrst og þannig leggja niður starf sitt og ljúka endanlega slitum Glitnis.

Frá því að eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo tók formlega til starfa fyrir um ári hefur félagið innt af hendi sex hlutagreiðslur til skuldabréfaeigenda – sú síðasta var 19. janúar upp á 99 milljónir evra – að fjárhæð samtals 1.253 milljónir evra, jafnvirði 155 milljarða króna á núverandi gengi. Með síðustu greiðslu sem barst til kröfuhafa virkjaðist bónuskerfi Glitnis. Samkvæmt skilmálum þess eiga lykilstjórnendur rétt á því að fá 20 prósent – að teknu tilliti til núvirðis fjárstreymis greiðslna til kröfuhafa – af heildarendurheimtum á bilinu 1.170 til 1.230 milljónir evra. Ef greiðslur til skuldabréfaeigenda eru enn meiri fá stjórnendur Glitnis 15,5 prósent af heildarendurheimtum umfram 1.230 milljónir evra. Samkvæmt útreikningum Markaðarins, þar sem allar hlutagreiðslur til kröfuhafa eru núvirtar í samræmi við formúlu sem lögð er til grundvallar bónuskerfinu, þá hafa stjórnendur Glitnis í dag unnið sér inn bónus sem nemur á bilinu 7,2 til 12,5 milljónir evra.

Sjóður Soros í hópi hluthafa

Bónusgreiðslurnar munu hins vegar sem fyrr segir að lokum verða nokkuð meiri enda á Glitnir enn eftir að selja lítillega af eignum og í framhaldi inna af hendi frekari greiðslur til skuldabréfaeigenda. Gert er ráð fyrir að það takist að losa um allar eignir Glitnis áður en árið er liðið og þar með ljúka slitum á félaginu. Þrátt fyrir að lykilstarfsmenn Glitnis eigi nú þegar tilkall til bónusgreiðslna upp á samtals 875 til 1.525 milljónir þá kveða skilmálar bónuskerfisins á um að 30 prósent þeirrar fjárhæðar skuli ekki greidd út til stjórnenda félagsins fyrr en búið er að innheimta 99 prósent af bókfærðu virði eigna Glitnis í árslok 2015. Ef stjórnarmenn Glitnis kunna að hafa fengið borgað sérstaklega fyrir vinnu umfram þá 72 daga á ári sem gert er ráð fyrir vegna þóknunar fyrir stjórnarsetu þá dregst sú upphæð einnig frá bónusgreiðslunum. Þær greiðslur nema 7 þúsund evrum, jafnvirði um 860 þúsundum íslenskra króna, fyrir hvern dag umfram þessa 72 daga sem áætlað er að þeir vinni að hámarki á ári fyrir Glitni.

Stærstu hluthafar Glitnis í dag – og þar með skuldabréfaeigendur félagsins – eru meðal annars vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Solus Alternative Asset Management og Quantum Partners, sjóður sem er í eigu hins þekkta fjárfestis George Soros. Eignasafn Seðlabanka Íslands var í hópi helstu hluthafa Glitnis en í nóvember seldi ESÍ allar kröfur sínar á hendur félaginu.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.