Innlent

100 milljónir króna í byggðastyrki vegna ljósleiðaravæðingar

atli ísleifsson skrifar
Borgarbyggð fær hæsta styrkinn, eða rúmer 12 milljónir króna.
Borgarbyggð fær hæsta styrkinn, eða rúmer 12 milljónir króna. Vísir/Vilhelm
Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið að styrkja uppbyggingu ljósleiðarakerfis í strjálbýlum sveitarfélögum um allt að 100 milljónum króna. Er það gert með vísan til markmiða byggðaáætlunar og umsagnar stjórnar Byggðastofnunar.

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu segir að þessi fjárveiting komi til viðbótar 450 milljóna króna úthlutun fjarskiptasjóðs til verkefnisins Ísland ljóstengt 2017.

Á myndinni til vinstri má sjá hvernig styrkurinn skiptist milli sveitarfélaga.

„Tilgangur þessa viðbótarstyrks í verkefnið er að styrkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga við umsókn þeirra til fjarskiptasjóðs til að hefja ljósleiðarauppbyggingu. Styrkumsóknir vegna verkefnisins Ísland ljóstengt 2017 verða lesnar upp á opnunarfundi í innanríkisráðuneytinu 1. febrúar kl. 13.

Í ljósi þess að fjárhagur sveitarfélaga er mismunandi hefur verið ákveðið að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Þetta er gert í þeim tilgangi að gera strjálbýlum sveitarfélögum hægara um vik að hefja ljósleiðarauppbyggingu. Eftirfarandi 19 sveitarfélög eiga kost á þessum fjármunum 2017 og nema styrkupphæðir 1 - 12,1 m.kr. (Sjá lista).

Helstu forsendur við úthlutun styrkjanna voru þéttleiki styrkhæfra svæða, hlutfall staða sem eru ótengdir, þróun íbúafjölda árin 2005 til 2015, ferðatími til þjónustukjarna og samgöngur, fjárhagsstaða sveitarfélags og meðaltekjur þess á íbúa. Gefin voru stig út frá þessum forsendum og sveitarfélög með fæst stig lentu efst í forgangsröðun. Óráðstafaður byggðastyrkur getur flust milli ára,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×