Handbolti

Gott fyrir egóið að verja víti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson og vítaskotin sem hann er búinn að verja.
Björgvin Páll Gústavsson og vítaskotin sem hann er búinn að verja. vísir
Björgvin Páll Gústavsson hefur farið mjög vel af stað á HM. Varið eins og berserkur á köflum og hjálpað liðinu mikið í erfiðri baráttu. Aron Rafn leysti Björgvin síðan vel af hólmi í síðasta leik þannig að markvarðaparið er sátt við sína vinnu það sem af er móti.

„Tölurnar tala sínu máli. Ég held við séum að fá á okkur 25 mörk að meðaltali í leik. Það er frekar óvenjulegt miðað við íslenska handboltalandsliðið. Við erum að standa góða vörn en erum að fá á okkur mörk úr hraðaupphlaupum út af tæknifeilum í sókninni,“ segir hinn viðkunnanlegi Björgvin Páll er við setjumst niður á hóteli landsliðsins í Metz.

Varnarleikurinn frábær

„Varnarleikurinn hefur verið frábær og strákarnir eiga hrós skilið fyrir sitt framlag þar. Bjarki kom til að mynda frábærlega inn í leikinn gegn Túnis sem var skemmtilegt. Svo var geggjað að sjá Aron koma í markið fyrir mig og skila svona góðum leik.“

Það eru engin læti og stress í Björgvini. Hann er búinn að gera þetta allt saman áður og það leynir sér aldrei hvað hann hefur gaman af því að spila á stórmótum. Markverðirnir vinna mikið saman milli leikja við að kortleggja andstæðinga. Það er ekki eitthvað eitt sem þeir hafa áhyggjur af því mörkin koma víða að.

„Þetta er búið að vera mjög mismunandi milli leikja. Ég lenti til að mynda í veseni með örvhentu skyttuna hjá Túnis. Hann hélt þeim inni í leiknum. Það hefur verið eini veiki bletturinn hjá mér í leikjunum hingað til. Annars hefur það verið dreift hvaðan mörkin eru að koma. Það er enginn einn stór hausverkur núna,“ segir Björgvin en íslenskir markverðir hafa oft átt í vandræðum með að verja úr hornum en það hefur aðeins breyst.

graf/fréttablaðið
Vinna sálfræðistríðið

Björgvin hefur verið frábær í vítaköstum á mótinu og er búinn að verja sex víti nú þegar. Það er áhugavert að hann sé að bæta sig í þeim tölfræðiflokki fjórða stórmótið í röð.

„Það er hluti af undirbúningnum að skoða vítaköstin. Svo er það geðveikin á punktinum og að vinna sálfræðistríðið. Það er alltaf gaman að verja víti en það telur jafn mikið og hinir boltarnir. Það er þó betra fyrir egóið að verja víti og þetta hefur verið að ganga vel hjá mér núna,“ segir Björgvin og brosir nokkuð yfir þessari umræðu. Honum finnst greinilega fátt skemmtilegra en að verja víti og vítaskyttur andstæðinganna eru klárlega orðnar hræddar við hann.

„Ég held að það sé alveg klárt. Það er svo margt við vítaköstin. Kannski er maður kaldur en ef maður nær að verja víti þá kviknar aftur á manni. Við erum sáttir við hvernig hefur gengið og við Aron ætlum að halda áfram á sömu braut.“

Mæta lakasta liði riðilsins í dag

Í dag spila strákarnir við Angóla sem er klárlega lakasta liðið í riðlinum. Þennan leik á Ísland að vinna en það þarf þó vissulega að hafa fyrir því.

„Það er á stefnuskránni að verja fleiri bolta þar. Þetta eru leikir sem eru áskorun fyrir markverði. Þetta eru óútreiknanlegir leikmenn. Þeir eru villtir og það er oft erfitt fyrir okkur og leikgreiningin okkar er erfiðari fyrir svona leik. Þeir gera ýmislegt sem manni dettur ekki í hug að þeir geri. Það verður áskorun að verjast þeim,“ segir Björgvin og bætir við að liðið stilli dagskránni upp þannig að þeir séu að keppa í bikarkeppni. Þeir séu staddir í 64-liða úrslitum gegn Angóla.

„Svo förum við í 32-liða úrslit og svo framvegis. Við verðum að vinna þessa leiki og ætlum að gera það. Þá verðum við að vera með hausinn í lagi. Mótið er búið að vera lengra en það lítur úr fyrir að vera þar sem leikirnir hafa verið hrikalega erfiðir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×