Handbolti

Geir: Allt galopið í báða enda

Arnar Björnsson skrifar
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari segir að þeir sem glími við meiðsli verði til í slaginn gegn Makedóníu annað kvöld.

„Ásgeir Örn Hallgrímsson og Janus Daði Smárason geta ekki æft í dag en ég held að þeir verði klárir á morgun,“ segir Geir sem ætlar ekki að gera breytingu á leikmannahópnum.

„Þetta er dálítið snúið ekki nema að einhver væri hreinlega að hrynja niður. Það bendir allt til þess að þeir verði lagi. Ef við tækjum nýja menn inn í dag þyrftu þeir að fljúga út á morgun og myndu ekki ná neinni æfingu með okkur. Samkvæmt læknateyminu er enginn það slæmur að það þurfi að pæla meira í því.“

Hvernig á að bregðast við sóknarleik Makedóna sem eru að taka markvörðinn útaf og spila sóknarleikinn með sjö leikmönnum?

„Þeir gerðu þetta í fyrsta leiknum á móti Túnis. Þetta gekk oft á tíðum vel hjá þeim en mér fannst Túnis frekar tapa leiknum en Madedónía að vinna hann. Túnis var fjórum mörkum yfir þrátt fyrir þetta lengi vel. Þetta er vopn sem þeir hafa verið að beita en þetta gekk ekki upp á móti Slóvenum. Þetta er tvíeggjað en við þurfum að búa okkur undir það. Ég er spenntur að sjá hvernig þeir spila á móti Spáni í kvöld.“

Lazarov og Stoilov á línunni eru lykilmenn þeirra. Eru einhverjir aðrir sem þú hefur áhyggjur af?

„Það eru þessir tveir og svo hornamaðurinn Manaskov sem spilar með Guðjóni Val hjá Rhein Neckar Löwen. Hann er öflugur leikmaður. Það sama á við um miðjumanninn Mirkulovski. En þetta er mest borið upp af 4-5 leikmönnum. Ég held að fjórir leikmenn séu með 70 prósent af mörkum þeirra og þar er auðvitað fremstur í flokki Lazarov. Hann er gríðarlega öflugur, með mikla yfirsýn og stórkostlega hönd. Við þurfum að ná að stoppa þetta og fara vel yfir leik þeirra 7 gegn 6.“

Þú ert sannfærður um að þetta hafist?

„Að sjálfsögðu. Þetta er skemmtilegt dæmi. Við erum að fara að spila um þriðja sætið að því gefnu að Makedónía tapi í kvöld á móti Spáni. Svo getur sú staða komið upp að Makedónía sé að berjast um efsta sætið í riðlinum. Vinni þeir Spán í kvöld, vinni þeir okkur gætu þeir hugsanlega orðið efstir. Það er allt galopið í báða enda.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Frábær lokakafli bjargaði skylduverkinu

Strákarnir okkar eru búnir að vinna sinn fyrsta leik á HM í Frakklandi. Þeir unnu fjórtán marka skyldusigur, 33-19, gegn Angóla. Þrátt fyrir dapran síðari hálfleik náði liðið að búa til forskotið undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×