Skoðun

Um vanhæfi dómara og endurupptöku mála

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Nú er er eðlilega um það rætt hverju varði ef í ljós kemur eftir uppkvaðningu dóms að vanhæfur dómari hafi setið í fjölskipuðum dómi.

Í þessu efni ættu menn að líta á dæmi sem getur að líta í dómasafni Hæstaréttar 7. júní 2007 í málinu nr. 400/2006. Í forsendum dómsins er tekið fram að dómur hafi (áður) fallið í málinu 1. mars 2007. Með ákvörðun 24. apríl 2007 hafi verið orðið við beiðni áfrýjanda um endurupptöku málsins. Ekki kemur fram í forsendunum hverjar voru ástæður fyrir þessari óvenjulegu meðferð málsins og skal nú bætt úr því.

Við fyrri málflutninginn sat sá sem þetta skrifar ásamt tveimur samdómurum í dómi. Eftir að dómur okkar gekk 1. mars 2007 barst Hæstarétti erindi frá lögmanni áfrýjandans, þar sem til þess var vísað að áfrýjandi hefði komið til viðtals við mig um mál sitt á lögmannsstofu mína á tilgreindum degi nokkrum árum fyrr, meðan ég enn þá starfaði sem málflutningsmaður. Hefði þetta verið eitt samtal þar sem ég hefði tjáð áfrýjandanum að ég teldi ekki vera efni fyrir hann að hafa kröfu sína uppi fyrir dómi. Til þess skorti lagalegar forsendur. Ég mundi ekkert eftir þessu þegar málið var flutt í Hæstarétti hið fyrra skiptið, þar sem ég sat í dómi.

Þegar erindið barst Hæstarétti kannaði ég málið og sá að viðkomandi einstaklingur hafði komið til viðtals við mig á skrifstofu mína þann dag sem tilgreindur var í erindinu. Ég sneri mér þá til yfirstjórnar Hæstaréttar og staðfesti að ég yrði að teljast hafa verið vanhæfur til meðferðar málsins. Féllst rétturinn á þetta og var málið því endurupptekið og öllum þremur dómurunum skipt út fyrir aðra þrjá, sem hlustuðu á síðari málflutninginn og kváðu upp nýjan dóm.

Þetta voru auðvitað sjálfsögð viðbrögð við þeirri stöðu sem komin var upp. Voru þau byggð á lagareglum um skilyrði fyrir endurupptöku dæmdra mála, sem eru með sama meginefni, hvort sem um einkamál eða sakamál ræðir.

Á sama hátt hlýtur að verða að endurupptaka þau mál þar sem í ljós hefur nú komið að dómarar, einn eða fleiri, hafa verið vanhæfir til meðferðar þess, þegar dómur var upp kveðinn. Það á enginn að þurfa að sitja uppi með dóm, þar sem einn eða fleiri dómarar hafa verið vanhæfir. Í fjölskipuðum dómi nægir að einn dómaranna hafi verið vanhæfur. Þá verður að leyfa endurupptöku og skipa allan dóminn á ný.




Skoðun

Sjá meira


×