Erlent

Þorskur og ýsa hörfa frá Bretlandi

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Ýsa hefur um árabil verið með helstu nytjafiskum Breta.
Ýsa hefur um árabil verið með helstu nytjafiskum Breta.
Ný rannsókn hefur leitt í ljós að ýsa og þorskur komi til með að hörfa frá breskum fiskimiðum á næstu árum vegna hækkandi hitastigs sjávar. The Guardian greinir frá.

Að sama skapi munu fisktegundir, sem að jafnaði halda til á suðlægari slóðum, verða æ algengari við strendur Bretlands.

Að mati vísindamanna gætu sumir þessara fjarlægu fiska haft skaðleg áhrif á lífríki sjávar við Bretland. Til að mynda gæti ákveðin tegund lindýrs, mararhetta, valdið tjóni á ostrum og múslingum. Aðrir erlendir gestir, svo sem eggskeljar og kyrrahafsostrur, gætu þó reynst sjómönnum happafengur.

Sardínum og smokkfiski hefur fjölgað til muna innan breskrar fiskveiðilögsögu og er talið að tegundirnar séu komnar til að vera.

Bretar fúlsa ekki við djúpsteiktri ýsu og frönskum.
Teymið sem stýrði rannsókninni leggur áherslu á að umskiptin kalli á hugarfarsbreytingu á meðal Breta. Eftirlætisfisktegundir Breta eru á undanhaldi og því nauðsynlegt fyrir þjóðina að venjast nýjum fisktegundum.

Hitastig sjávar við strendur Bretlands hefur hækkað um 1,5 gráður á síðustu 30 árum og telja vísindamenn að hlýnunin haldi áfram. Breytingarnar á hitastigi sjávar má rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda. 

Sjórinn við Íslandsstrendur fer einnig hlýnandi en samkvæmt skýrslu sem gerð var af umhverfisráðuneytinu 2008 höfðu 26 áður óþekktar fisktegundir veiðst innan lögsögu Íslands á árunum áður en skýrslan var unnin. 

Greining Sjávarklasans frá því í vor leiddi það jafnframt í ljós að smokkfiskur, sem veiðist nú í talsverðum mæli við Skotland, sé að flytja sig norðar. Þá eru uppsjávarfiskar á borð við brisling og brynsirtlu líkast til að færa sig úr Norðursjó og nær Íslandsmiðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×