Erlent

Hundruð flýja heimili sín vegna stærsta kjarrelds í sögu Los Angeles

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Menn og málleysingjar flýja eldinn í Los Angeles.
Menn og málleysingjar flýja eldinn í Los Angeles. Vísir/Getty
Um 700 íbúðarhús hafa verið rýmd í Los Angeles og nágrenni vegna villields sem geysar við Burbank-hverfið í norðvesturhluta Los Angeles.

Í gær barst lögreglu tilkynning um lítinn eld sem logaði í kjarri í La Tuna gilinu skammt norðan við Burbank. Slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins en hann náði þrátt fyrir það að glæða nýtt bál sem breiddi síðan úr sér á ógnarhraða. Hinum mikla kjarreldi hefur verið gefið nafnið La Tuna-eldurinn. 

Síðdegis í dag, að staðartíma, spannaði hann rúmlega 2000 hektara landsvæði. Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, hefur staðfest að eldurinn sé sá stærsti í sögu borgarinnar.

Aðstæður hafa reynst slökkviliði erfiðar en hitabylgja ríður nú yfir Kaliforníu-ríki. Að auki hafa vindar verið talsvert óútreiknanlegir, sem torveldar slökkvistarf.

Hitamet hafa fallið í landshlutanum, til að mynda mældist hiti í San Francisco 41 gráða í gær. Er um ræða hæsta hita frá upphafi mælinga.

Ekki hafa borist neinar fregnir um manntjón vegna eldsins en að minnsta kosti eitt heimili er gjörónýtt.

Í augnablikinu eru yfir 500 slökkviliðsmenn á vettvangi og stórum hluta nærliggjandi hraðbrautar hefur verið lokað.

Borgaryfirvöld hafa biðlað til íbúa á svæðinu að halda sig innandyra vegna reykjarmakkarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×