„Ég er að koma af klósettinu og er að labba í gegnum dansgólfið og dansa smá. Svo er ég allt í einu kýld beint í gagnaugað og ég hníg niður í gólfið og hún kemur þá ofan á mig og heldur áfram að lemja mig. Þá koma dyraverðinir og taka hana ofan af mér og taka mig afsíðis,“ segir Rannveig í samtali við Vísi.

Rannveig segist ekkert hafa orðið vör við þessa konu fyrr um kvöldið og að þær hafi ekki átt í neinum samskiptum.
„Löggan kom svo og tók stutta skýrslu af mér og þeir fóru síðan með mig upp á bráðamóttöku,“ segir Rannveig en hún ætlar sér að kæra verknaðinn.
Rannveig er töluvert illa leikin eftir líkamsárásina. Hún er bólgin við gagnaugað og með sár í eyranu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Augu hennar og hendur eru bólgnar og auk þess marðist hún á læri við fallið.
„Miðbær Reykjavíkur er orðinn stórhættulegur og við þurfum að vera meðvituð um hvort annað,“ segir Rannveig að lokum.
Rannveig deildi stöðuuppfærslu á Facebook, sem sjá má hér að neðan. Þar sem hún biðlar til fólks að hafa samband við lögreglu eða hana sjálfa, ef það hefur upplýsingar sem gætu gagnast við rannsókn málsins.