Erlent

Leiðtogar ISIS falla hver á fætur öðrum

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir stjórnarhers Bashar al-Assad nærri Deir Ezzor.
Meðlimir stjórnarhers Bashar al-Assad nærri Deir Ezzor. Vísir/AFP
Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna sögðust í gær hafa fellt tvo leiðtoga Íslamska ríkisins nærri Mayadin í Sýrlandi. Þeir hefðu fallið í loftárásum þar þann 4. september. Þá segjast Rússar einnig hafa fellt fjóra háttsetta meðlimi samtakanna nærri borginni Deir Ezzor.

Í tilkynningu frá bandalagi Bandaríkjanna gegn ISIS segir að mennirnir sem hafi verið felldir hafi heitið Abu Anas al-Shami og Junaid ur Rehman. Al-Shami þróaði vopn og sprengjur fyrir hryðjuverkasamtökin og útbjó sprengjur sem vígamenn ISIS hafa komið víða fyrir í gildrum.

Rehman var verkfræðingur sem vann að því að vopnvæða dróna sem sem ISIS-liðar hafa beitt gegn andstæðingum sínum. Drónarnir eru notaðir til að varpa sprengjum og kanna orrustuvelli.

Emír Deir Ezzor allur

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði í morgun að þeir hefðu komist á snoðir um fund háttsettra meðlima ISIS nærri Deir Ezzor og hefðu gert loftárás á neðanjarðarbyrgi samtakanna. Ráðuneytið segir 40 vígmenn hafa fallið. Þar á meðal hafi verið fjórir leiðtogar ISIS.

Einn þeirra er sagður heita Abu Muhammad al-Shimali, sem einnig er sagður hafa gengið undir nafninu Emír Deir Ezzor. Þá segir ráðuneytið að þeim hafi borist vísbendingar um að stríðsráðherra ISIS, Gulmurod Khalimov hafi særst alvarlega í árásinni og verið fluttur á brott.

ISIS-liðar eru á undanhaldi víða og hafa nánast verið reknir alfarið frá Írak. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×