Erlent

Obama fær þjóðveg nefndan í höfuðið á sér

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama bjó á árum áður í Pasadena.
Barack Obama bjó á árum áður í Pasadena. Vísir/AFP
Ríkisþing Kaliforníu hefur samþykkt að nefna kafla á þjóðvegi í höfuðið á Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Kaflinn, sem er á Highway 134, milli Glendale og Pasadena, norður af Los Angeles, mun fá nafnið President Barack H. Obama Highway.

Ákvörðun þingsins krefst ekki samþykktar ríkisstjóra og var tekin sama dag og Donald Trump, eftirmaður Obama í embætti forseta, ákvað að afnema DACA-áætlunina svökölluðu sem verndar innflytjendur sem voru flutt sem börn til Bandaríkjanna og tryggir þeim leyfi til að starfa og sunda nám í landinu. 

Obama bjó eitt sinn í Pasadena og stundaði nám í Occidental College í Eagle Rock, ekki langt sunnan við umræddan vegarkafla sem er á milli Highway 2 og Interstate 210.

Obama verður ekki fyrsti fyrrverandi forsetinn sem fær þjóðveg nefndan í höfuðið á sér í Kaliforníu. Þannig er þjóðvegur 118 í San Fernando nefndur í höfuðið á Ronald Reagan, fertugasta forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×