Skoðun

Rétt skal vera rétt

Nichole Leigh Mosty skrifar

Nýleg flökkusaga greinir frá því að núverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen hafi ein og óstudd hafnað umsókn dæmds kynferðisbrotamanns um uppreista æru í maí síðastliðnum.



Nú er auðvitað enginn til frásagnar um það sem gerist á bak við luktar dyr ráðherra nema ráðherrann sjálfur. Þessi flökkusaga, sem kann að hafa orðið til í bakherbergi við Háaleitisbraut, stenst hins vegar ekki skoðun þegar litið er til afstöðu ráðherrans til afgreiðslu slíkra umsókna. Afstöðu sem hún gaf uppi á fundi allsherjar- og menntamálanefndar þann 30. ágúst s.l. . Þremur mánuðum eftir að hin meinta höfnun átti að hafa átt sér stað.



Meginniðurstaða Sigríðar í ágúst var sú að ráðherra sé ekki stætt á því að breyta framkvæmd á afgreiðslu umsókna um uppreista æru nema að undangenginni lagabreytingu. Með öðrum orðum, henni sé ekki stætt á að láta eigin geðþótta ráða því hvernig umsóknir eru afgreiddar. Málið liggi því ekki í ráðuneytinu, heldur hjá Alþingi, sem hefur jú það hlutverk að setja lög.



Og þá stendur eftir spurningin um það hvort flökkusagan var skrifuð í þeim tilgangi að reyna að endurheimta æru ráðherrans, sem af einhverjum ástæðum hefur orðið margsaga undanfarna daga.



Höfundur er þingmaður Bjartrar framtíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×