Innlent

Hafna tilboðum sem borist hafa í Flóasiglingar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Farþegasiglingar frá Akranesi lögðust af með opnun Hvalfjarðarganga 1998.
Farþegasiglingar frá Akranesi lögðust af með opnun Hvalfjarðarganga 1998. Vísir/GVA
Tilraunaverkefni með farþegasiglinar milli Reykjavíkur og Akraness í sumar eru út af borðinu. Að því er fram kemur í greinargerð sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði fyrir borgarráð samrýmdust hugmyndirnar þeirra sem sendu inn tilboð ekki útboðsauglýsingunni þar sem tilboðsgjafarnir horfðu til lengra samningstímabils en aðeins eins sumars.

Borgarráð hafnaði því tilboðunum en samþykkti jafnframt að útboðsskilmálar vegna Flóasiglinganna yrðu endurskoðaðir fyrir 15. ágúst í sumar.

Fram kemur í greinargerð Dags að þriðja mars hafi verið auglýst eftir aðilum til viðræðna vegna tilraunaverkefnis um beinar siglingar ferju á milli Reykjavíkur og Akraness á tímabilinu maí til september 2016.

„Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna rekstrargrundvöll reglulegra bátsferða á milli sveitarfélaganna og var gert ráð fyrir því að rekstraraðili ferju myndi safna upplýsingum varðandi rekstrarþætti á framangreindu tímabili,“ er rakið í greinagerðinni.

Fram kemur að þrír aðilar, Sæferðir ehf., Special Tours ehf. og Gunnar Leifur Stefánsson, hafi sótt um þátttöku. Sæferðir hafi sagt sig frá viðræðunum en Special Tours og Gunnar Leifur Stefánsson sent inn hugmyndir að tilraunaverkefninu.

Stefnt er að því auglýsa útboð að nýju vegna sumarsins 2017. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 17. maí 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×