Innlent

Sigrún heiðraði sjómann fyrir umhverfisvernd

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hér má sjá Sigrúnu og Þorvald í dag.
Hér má sjá Sigrúnu og Þorvald í dag. Vísir/Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra veitti Þorvaldi Gunnlaugssyni sjómanni í dag, heiðursviðurkenningu, vegna góðra umgengni um hafið, fyrirmyndarstarf í úrgangsmálum og framsækna hugsun varðandi nýja orkugjafa til sjós. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Ráðherra sagði meðal annars við tilefnið að alvarleg ógn væri allt um kring um okkur þegar ruslið og plastið endar í hafinu. „Það sem sagt var áður fyrr, að lengi taki sjórinn við, eigi alls ekki við lengur. Þess vegna eigi slagorðið „Hættum að henda í hafið“ vel við,“ sagði Sigrún.

Þetta er í fyrsta skipti sem umhverfis-og auðlindaráðherra veitir sjómanni viðurkenningu á Sjómannadaginn fyrir fyrirmyndarstarf að umhverfismálum.

„Þorvaldur Gunnlaugsson hefur stundað smábátaútgerð um langt skeið og verið duglegur að leita leiða að umhverfisvænum lausnum og haft hvetjandi áhrif á aðra til að koma með allan úrgang í höfn. Þorvaldur lætur sig mjög varða umgengi við bryggju og förgun úrgangsolíu sem og annara spilliefna. Þá hefur hann tekið þátt í undirbúningi við skoðun á metani sem eldsneytisgjafa og lífdísil og verið til fyrirmyndar í alfameðferð og umgengni um bát. Þorvaldur Gunnlaugsson er formaður smábátafélags Reykjavíkur og situr í stjórn Landsambands smábátaeigenda,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×