Skoðun

Ljósnet Símans

Sæmundur E. Þorsteinsson skrifar
Ingólfur Bruun ritaði grein í Fréttablaðið þ. 25. nóv. sl. Þar eru rangfærslur af ýmsu tagi sem krefjast svara og verður hér brugðist við nokkrum þeirra. Fyrst skal taka til fullyrðingar um Ljósnet sem Ingólfur kallar orðskrípi. Hér er játað að undirritaður er höfundur þessa orðs og hefur fram að þessu greint frá þeirri staðreynd með nokkru stolti.

Um ljósleiðaranet

Síminn byrjaði þegar árið 1995 að leggja ljósleiðara í aðgangsnetinu og var þar í hópi fyrstu símafélaga í heiminum. Þessi framkvæmd var nefnd „Breiðbandið“ og einkenndist af mikilli framsýni og ráðdeild. Vegna kostnaðar var Breiðbandið eingöngu lagt í ný hverfi eða þegar færi gafst í eldri hverfum að nýta jarðframkvæmdir af öðrum orsökum. Nærri 80% kostnaðar við ljósleiðaralagnir í þéttbýli er vegna jarðvinnu. Með þessari aðferð hafði Breiðbandið árið 2006 náð til um 60% íbúða á Reykjavíkursvæðinu en samt var nærri engu fé varið í jarðframkvæmdir sérstaklega vegna þess. Árið 2002 hófst lagning blástursröra fyrir ljósleiðara ásamt breiðbandslögnum. Árið 2006 var ákveðið að leggja ekki koparlagnir í nýjum hverfum, eingöngu ljósleiðara.

Hægt er að leggja ljósleiðaranet með margs konar högun. Á ensku fagmáli heitir þetta „Fibre To The Home“ (FTTH), „Fibre To The Curb“ (FTTC), „Fibre To The Exchange“ (FTTEx). Í öllum þessum gerðum eru ljósleiðarar nýttir megnið af leiðinni en kopar er nýttur seinasta spölinn til tölvu eða myndlykils. Net Gagnaveitu Reykjavíkur er FTTH en net Mílu er blanda af FTTH og FTTC. Í FTTC er lagður ljósleiðari í götuskápa og þaðan er fyrirliggjandi koparlína nýtt til að bera merkið til viðskiptavina. Í FTTH er ljósleiðari lagður heim til fólks og hann endar í aðgangstæki eða beini sem tengist við tölvur og myndlykla með kopartengingu sem getur verið tugir metra að lengd. Í FTTC er algengt að koparlínan sé 100 - 200 m löng. Ef hugsað er um vegalengd milli þjónustupunkts Símans í Múlastöð og heimilis á Seltjarnarnesi er línulengdin um 6 km. Merkið fer því um 6 km í ljósleiðara en um 200 m eftir koparlínu. Því eru um 97% leiðarinnar í ljósleiðara. Að fullyrða að þetta hafi ekkert með ljósleiðara að gera er rangt og notkun á orðinu „Ljósnet“ getur því ekki talist blekking. Enda staðfesti Neytendastofa þetta með úrskurði sínum um notkun þessa orðs.

„Vanræksla Símans“

Ingólfur fullyrðir að Síminn hafi vanrækt árum saman að hefja ljósleiðaralagnir til heimila. Síminn byrjaði að veita ADSL þjónustu árið 1999 og var þá í fararbroddi símafélaga. ADSL þjónustan markaði byltingu því þá fékkst sítenging við Internetið. Þessi þjónusta þróaðist og dafnaði í takt við þarfir neytenda. Að því kom að færa þurfti tengipunkt ljósleiðara nær heimilum viðskiptavina til að hækka fjarskiptahraða. Þá kom uppbygging Breiðbandsins sér vel og með VDSL tækninni var unnt að veita hraðvirkar og áreiðanlegar tengingar. Þróun kopartækninnar er hvergi lokið og enn er hægt að færa tengipunkt ljósleiðara nær heimilum viðskiptavina. Sú tækni er nefnd G.fast en með henni er mögulegur tengihraði yfir 1 Gb/s. Ef til vill kemur að því að ljósleiðara þurfi alla leið inn í tölvur og myndlykla viðskiptavina en sá tímapunktur er enn í langri framtíð. Engin ástæða er til þess að nýta ekki kopartengingar ef þær leiða til góðrar þjónustu sem uppfyllir þarfir fólks. Þjónustan skiptir hér meginmáli, ekki miðillinn sem ber upplýsingarnar fram og til baka.

Fjarskiptafélög sem gæta þurfa ráðdeildar í rekstri sínum og hafa ekki aðgang að ríkisstyrkjum hafa farið sömu leið og Síminn. Reyndar hefur þjónusta Símans á þessu sviði staðist fyllilega samanburð við þau símafélög sem fremst standa. Um þetta bera margar úttektir vitni þar sem þjónusta Símans hefur iðulega skarað fram úr. Staða Íslands er varðar aðgengi og notkun almennings að upplýsinga- og fjarskiptatækni er ein sú besta í heiminum. Þetta er t.d. hægt að sjá í skýrslu Alþjóða fjarskiptasambandsins (ITU) sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna [1]. Þar er vísitala um stöðu þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni, (IDI, ICT Development Index). Ísland er þar í 2. sæti á eftir S-Kóreu. Önnur staða væri uppi á teningnum ef Síminn hefði „vanrækt skyldur sínar“ við almenning en vísitölur ITU byggja mjög lítið á starfsemi GR.

Þekking

Undirritaður var um árabil forstöðumaður rannsókna hjá Símanum. Síminn lagði í umtalsverðan kostnað við þá þekkingaröflun sem fólst í rannsóknarstarfseminni, við að senda starfsmenn sína á ráðstefnur og námskeið og við að kaupa skýrslur með upplýsingum um fjarskipti. Þetta viðhorf til þekkingar hefur skilað Símanum góðum árangri. Hann hefur getað byggt upp framúrskarandi fjarskiptanet fyrir litla þjóð í stóru landi. Verð þjónustunnar hefur almennt verið neytendum hagstætt og staðist allan samanburð við verðlagningu hjá samanburðarþjóðum. Starfsfólk Símans í 110 ár á því fremur heiður skilinn en umfjöllun á borð við þá sem birtist í ofannefndri grein.

[1] http://www.itu.int/en/ITU-D/Statistics/Pages/publications/mis2016.aspx

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×