Innlent

Ómar reyndist ökklabrotinn

Jakob Bjarnar skrifar
Krafturinn í Ómari er ótrúlegur, nú hefur hann farið um fótbrotinn í sex vikur, að verða 76 ára gamall.
Krafturinn í Ómari er ótrúlegur, nú hefur hann farið um fótbrotinn í sex vikur, að verða 76 ára gamall. visir/stefán
Ómar Ragnarsson, sjónvarpsmaðurinn erni og síkáti, er kominn í gifsi. Hann er ökklabrotinn en hefur nú hoppað um í sex vikur, að verða 76 ára gamall, fótbrotinn.

Vísir greindi frá því um miðjan apríl að ekið hafi verið á Ómar þar sem hann var að fara yfir gangbraut á Grensásvegi á sínu rafmagnshjóli.

Sá sem ók á Ómar var eldri en hann þannig að samanlagður aldur þessara tveggja vegfarendanna var vel yfir 150 ár. Ómar greindi frá slysinu, notaði tækifærið og lofaði hjálmanotkun. „Með honum stangaði ég og braut framrúðu bíls sem ekið var á mig,“ sagði Ómar.

Þá segir Ómar einnig frá því, og vitnar í lækninn með það, að það hafi verið magnað og alger hundaheppni að ekkert bein hafi brotnað.

En, nú er komið á daginn að eitthvað hafa röntgentækin brugðist. Ómar hefur verið að reyna að koma sér í form eftir slysið, og farið um en eitthvað voru læknarnir óánægðir með ganginn á batanum og sendu hann í röntgenmyndatöku þegar Ómar mætti í endurkomu. Þá kom það á daginn að Ómar hafði brotnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×