Innlent

Búsvæði laxins setur landfyllingu í Elliðaárvogi í uppnám

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Laxinn í Elliðaánum, sem hér er verið að reyna að fanga, gæti verið í hættu ef af áformum um landfyllingu í voginum yrði.
Laxinn í Elliðaánum, sem hér er verið að reyna að fanga, gæti verið í hættu ef af áformum um landfyllingu í voginum yrði. Fréttablaðið/Anton Brink
Athuga þarf hvort skerðing verði á mikilvægu búsvæði laxfiska á ósasvæði Elliðaánna ef af áformum um landfyllingu í Elliðaárvogi yrði.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar telur mikilvægt að eyða óvissu um málið með bættum upplýsingum og rannsóknum og verður ráðist í nánari athugun á áhrifum á laxastofninn áður en lengra verður haldið. Þetta kemur fram í bókun ráðsins frá fyrsta júní.

Hjálmar Sveinssonvísir/stefán
„Áætluð íbúabyggð við Elliða­árvog er lykilhlekkur í þéttingu byggðar í borginni en ef nánari athugun á lífríki svæðisins leiðir í ljós að áhrif á laxfiska geti orðið veruleg, er mikilvægt að framkvæmdin verði endurskoðuð,“ segir í bókuninni.

Hjálmar Sveinsson, formaður ráðsins, segir mikilvægt að geta gripið til ráðstafana ef í ljós komi að framkvæmdirnar hefðu veruleg áhrif. 

„Þá verður gripið til ráðstafana, svo sem eins og að minnka þetta svæði, haga uppbyggingunni öðruvísi og svo framvegis,“ segir Hjálmar og bætir við: „Ef hægt er að sýna það og sanna að afleiðingin muni verða svo alvarleg þá getur þurft að endurhugsa þetta alveg.“

Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir einhug í ráðinu um að skoða verði málið betur. „Við tökum undir það að þarna þurfi að stíga mjög varlega til jarðar ef það er svo að laxastofninn eða Elliðaárnar séu í einhvers konar hættu.“

Að sögn Hildar hafa sjálfstæðismenn hins vegar gagnrýnt að verið sé að breyta atvinnusvæðum í íbúabyggð. 

„Það er auðvitað forsenda þéttingar byggðar en það eru líka önnur svæði í Reykjavík sem væri þá hægt að skoða betur svo við séum ekki að taka sénsinn á að eyðileggja einstakt fyrirbrigði eins og Elliðaárnar og laxinn eru,“ segir Hildur.

Hjálmar bendir á að „flestir þættir fyrir utan laxinn eru taldir jákvæðir eða allavega þannig að þeir muni ekki hafa neikvæð áhrif“.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. júní 2016


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×