Kylfingurinn Jordan Spieth lék loksins hring undir pari á stórmóti í golfi í dag er hann lauk leik á Opna breska meistaramótinu eftir 10 hringi í röð yfir pari.
Hinn 22 árs gamli Spieth vakti mikla athygli á síðasta ári þegar hann bar sigur úr býtum á fyrstu tveimur stórmótum ársins.
Spieth var í raun ekki langt frá því að vinna öll fjögur stórmótin en hann lenti í 4. sæti á Opna breska í fyrra og í 2. sæti á PGA-meistaramótinu.
Spilamennskan hefur ekki verið sú sama í ár en allt frá öðrum hring á Masters-mótinu í vor var Spieth búinn að leika yfir pari alla hringi á stóru mótunum.
Spieth sagðist ætla að byggja á spilamennsku dagsins sem innihélt þrjá fugla og einn örn fyrir PGA-meistaramótið en hann hefur tilkynnt að hann muni ekki keppa á Ólympíuleikunum í Ríó vegna ótta við Zika-veiruna.
