Skoðun

Tækifæri felast í sókndjarfri landbúnaðarstefnu

Gylfi Arnbjörnsson skrifar
Það er mikill misskilningur hjá forystu bændasamtakanna að Alþýðusamband Íslands vilji með gagnrýni sinni á fyrirkomulag búvörusamninga grafa undan rekstrargrundvelli íslensks landbúnaðar og starfsöryggi þeirra sem í greininni starfa. Þvert á móti byggir málflutningur ASÍ í málinu á því að í greininni séu sóknarfæri sem ekki eru nýtt í nýgerðum búvörusamningum.

Það er heldur ekki svo að búvörusamningar séu einkamál bænda og landbúnaðarráðherra. Samningarnir skuldbinda skattgreiðendur næsta áratuginn til greiðslu hárra fjárhæða og þeir hafa víðtæk áhrif á þúsundir starfsmanna í matvælaiðnaði og verðlag á matvöru til neytenda. Helsta markmið búvörusamninga hefur verið að stuðla að hagræðingu, bæta samkeppnishæfni og lækka vöruverð. Að hluta til hafa markmiðin gengið eftir, í mjólkurframleiðslu hefur búum fækkað en samt er nú framleidd meiri mjólk en nokkru sinni fyrr. Aukin framleiðni hefur hins vegar ekki komið fram í lægra vöruverði til neytenda, vöruúrval er takmarkað og samkeppni lítil sem engin. Nýundirritaðir búvörusamningar munu festa núverandi kerfi í sessi og ýta undir samþjöppun í greininni án þess að bæta hag neytenda.

Það hefur lengi verið skoðun ASÍ að mikilvægt sé að dregið verði úr tollvernd landbúnaðarvara og beinn stuðningur við greinina aukinn á móti. Af slíkri áherslubreytingu höfum við jákvæða reynslu sem bændur þekkja vel úr garðyrkjuframleiðslunni. Afnám tolla á agúrkum, paprikum og tómötum og aukinn beinn stuðningur við framleiðendur var heillaspor fyrir alla aðila, verð til neytenda lækkaði, innlend framleiðsla efldist og afkoman batnaði. Nýsköpun í greininni jókst og markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu jókst verulega þrátt fyrir auknar innflutningsheimildir. Tækifæri til sambærilegra breytinga er að finna víða í íslenskum landbúnaði.

Gagnrýni ASÍ byggir því síður en svo á vilja til að draga máttinn úr íslenskum landbúnaði heldur teljum við að nýta hefði átt tækifærið nú til að ráðast í nauðsynlega nútímavæðingu á stuðningi við landbúnaðinn sem hefði aukið nýsköpun og samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar, ekki síst með hagsmuni bænda og starfsfólks í greininni að leiðarljósi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×