Innlent

„Alveg viss um að Stúdentaráð var ekki að meina að fólk væri að reyna að vera með lág laun“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kristófer Már Maronsson formaður Stúdentaráðs segir textann fræðilega greiningu á hvötum í núverandi námslánakerfi.
Kristófer Már Maronsson formaður Stúdentaráðs segir textann fræðilega greiningu á hvötum í núverandi námslánakerfi. Vísir
Skjáskot af texta úr umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) til endurskoðunarnefndar um Lánasjóð íslenskra námsmanna hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum seinustu daga. Í textanum, sem sjá má á myndinni hér að ofan, er rakið hver sé hvati námsmanna til að taka lán og segir meðal annars:

„Þannig hvatinn er í raun að vera með eins há lán og mögulegt er og eins lág laun og mögulegt er til þess að þurfa að greiða sem allra minnst af námsláninu.“

Ýmsir hafa furðað sig á þessari greiningu þar sem þeim þykir undarlegt að Stúdentaráð haldi virkilega að háskólamenntað fólk vilji frekar vera með lág laun heldur en há svo það þurfi ekki að borga eins mikið af námslánunum.

Kristófer Már Maronsson formaður SHÍ segir að um sé að ræða fræðilega greiningu á hvötum í námslánakerfinu eins og það er núna. Hún sé ekki byggð á gögnum um það hvers vegna stúdentar taki í raun námslán.

„Meiningin á bak við þetta er meðal annars að það er hvati til að vera með sem lægst laun á skattframtali, það er að segja að skjóta undan skatti af því að afborganir námslána eru tekjutengdar. Því hærri laun sem þú ert með því meira borgarðu af námsláninu þínu en ef þú getur verið með sömu laun en ekki gefið þau upp til skatts þá þýðir þetta að hvatinn sé sá að reyna að fela tekjur því þá þarftu að borga minna af námsláninu þínu,“ segir Kristófer í samtali við Vísi.

Hann segist viss um að Stúdentaráð hafi ekki verið að meina það með þessum texta að fólk væri að reyna að vera með lág laun.

„Ég er alveg viss um að Stúdentaráð var ekki að meina að fólk væri að reyna að vera með lág laun, ég held ekki að nokkur maður myndi reyna það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×