Innlent

Hátæknisetur opnar í Vatnsmýrinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framkvæmdir við byggingu hófust árið 2013
Framkvæmdir við byggingu hófust árið 2013 Mynd/Ari Magg
Nýtt hátæknisetur systurfyrirtækjanna Alvogen og Alvotech opnar formlega í dag við hátíðlega athöfn. Framkvæmdir við byggingu hússins innan Vísindagarða Háskóla Íslands hófust í nóvember 2013 og er nú að ljúka.

Innan setursins verður unnið að þróun og framleiðslu líftæknilyfja sem væntanleg eru á markað á næstu árum. Þau lyf sem nú eru í þróun eru háþróuð stungulyf sem meðal annars eru notuð við meðferð krabbameins- og gigtarsjúkdóma. 

Lyfjafyrirtækið Alvogen hóf starfsemi á Íslandi árið 2010 og nú starfa um 160 háskólamenntaðir sérfræðingar hjá systurfyrirtækjunum hér á landi. Heildarfjárfesting Alvotech á sviði líftæknilyfja verður um 500 milljónir evra, 75 milljarðar króna, á næstu árum, þar með talin fjárfesting á fullbúnu húsi sem er um 8 milljarðar króna, segir í tilkynningu frá Alvogen.

Mynd/Ari Magg
Þar kemur fram að sex líftæknilyf séu nú í þróun hjá Alvotech í samvinnu við erlenda samstarfsaðila. Fyrstu lyf fyrirtækisins eru væntanleg á markað árið 2019 þegar einkaleyfi renna út. Frumlyf þeirra lyfja sem fyrirtækið mun þróa og framleiða eru nú þegar á markaði og í hópi stærstu lyfja á heimsvísu. Áætlað söluverðmæti þeirra er um 15 milljarðar evra á ári. 

„Það er ánægjulegt að sjá þetta metnaðarfulla verkefni verða að veruleika. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan við tókum skóflustungu að þessu glæsilega húsi sem nú verður tekið í notkun. Hátæknisetrið er búið fullkomnustu tækjum og öll starfsaðstaða fyrir vísindamenn fyrirtækisins er eins og best verður á kosið,“ er haft eftir Róberti Wessmann, stofnanda og forstjóra Alvogen.

„Við sjáum mikil tækifæri í sölu líftæknilyfja á næstu árum og teljum að Alvotech og Ísland geti verið þar í lykilhlutverki. Við uppbyggingu á nýju alþjóðlegu lyfjafyrirtæki þarf að hafa skýra framtíðarsýn og hugrekki og það höfum við. Nú er mikilvægum áfanga náð og við munum halda áfram þróunarvinnu okkar og fylgja eftir metnaðarfullum áætlunum,“ segir Róbert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×