Innlent

Samþykkja íbúðir og hafna íþróttahúsi

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Reykjavík Borgarráð samþykkti á fimmtudag að auglýsa tillögu að breytingu á deiluskipulagi lóða við Keilu-, Fjöru- og Boðagranda. Í tillögunni felst meðal annars uppbygging fjölbýlishúsa með 78 íbúðum á lóð Keilugranda 1. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks höfnuðu tillögunni og lögðu til í staðinn að lóðin yrði nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi í Vesturbænum. Þá tillögu felldi meirihlutinn. „Aðstöðuskortur háir nú þegar íþróttastarfsemi í Vesturbænum og er því mikilvægt að hún fái aukið athafnarými, ekki síst þar sem útlit er fyrir verulega þéttingu byggðar í hverfinu á næstu árum sem gæti haft í för með sér að íbúum þess fjölgi um allt að 5.500 manns eða 33 prósent,“ segir í tillögu sjálfstæðismanna. „Mér finnst þetta mikil skammsýni,“ segir Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks. „Það skiptir miklu máli að standa með vönduðum hætti að þéttingu byggðar þannig að innviðir séu fyrir hendi, til að mynda skólar og íþróttamannvirki. Það hefur verið langvarandi skortur á íþróttaaðstöðu í Vesturbænum sem hefur mikið verið kvartað yfir við okkur borgarfulltrúa,“ bætir Kjartan við. Lóðin sé besti kosturinn undir slíkt vegna nálægðar við KR-svæðið. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um nýtingu svæðisins í gegn um tíðina. „Meðal annars voru á tímabili viðræður við KR um hvað þeir sæju fyrir sér á þessu svæði. Þær viðræður leiddu hins vegar til þess á endanum að þeir töldu að þeir gætu komið sinni uppbyggingu fyrir innan núverandi áhrifasvæðis síns,“ segir Björn. – þea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×