Erlent

John Kerry: Bandaríkin hefðu verið í fullum rétti að skjóta niður rússnesku herþoturnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mynd sem Bandaríkjaher hefur birt af atvikinu.
Mynd sem Bandaríkjaher hefur birt af atvikinu. Mynd/EUCOM
Bandaríski herinn hefði verið í fullum rétti til þess að skjóta niður rússnesku herþoturnar sem flugu ítrekað yfir bandarískt herskip á Eystrasalti í vikunni. Þetta segir John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

„Við fordæmum slíka hegðun. Hún er gáleysisleg, ögrandi og hættuleg,“ sagði Kerry í viðtali við fjölmiðla í Bandaríkjunum í dag. „Undir gildandi reglum um bardaga hefðum við verið í fullum rétti til þess að skjóta þær niður.“

Tvær rússneskar herþotur flugu ítrekað ískyggilega nálægt bandaríska herskipinu USS Donald Cook í vikunni. Skipið var statt á alþjóðlegu hafsvæði í Eystrasaltinu þegar herþoturnar, rússneskar Sukhoi SU-24, flugu allt að 12 sinnum yfir skipið. Atvikin áttu sér stað á mánudag og þriðjudag en engin vopn voru sjáanleg á þotunum. Skipstjóri herskipsins segir að líklega hafi herþoturnar verið að herma eftir árás á skipið.

John Kerry segir að skilaboðum hafi verið komið áleiðis til Rússland um að slík hegðun væri ekki boðleg og að bandaríski herinn myndi ekki láta ógna sér á hafi úti.

Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að herþoturnar hafi fylgt öllum öryggisviðmiðum er þær flugu yfir bandaríska herskipið.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×