Erlent

Greiða tvisvar til baka á tæpum fimm árum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fólk þvær af sér fötin í flóttamannabúðum við höfnina í Piraeus á Grikklandi.
Fólk þvær af sér fötin í flóttamannabúðum við höfnina í Piraeus á Grikklandi. vísir/EPA
Þegar flóttafólk kemur til Evrópulanda fylgir því kostnaður í fyrstu, en innan fimm ára má búast við því að ríkin hafi fengið allan þann útlagða kostnað endurheimtan tvisvar sinnum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá TENT-samtökunum, sem vinna að því að aðstoða flóttafólk og koma í veg fyrir að fólk sé á vergangi víða um heim.

Efnahagur ríkjanna styrkist við komu flóttafólks meðal annars vegna þess að hinir nýju íbúar skapa fleiri störf, auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu, og auka skatttekjur ríkisins.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem birtar eru í skýrslunni frá TENT, má búast við að kostnaðurinn við að taka á móti flóttafólki muni auka skuldir aðildarríkja Evrópusambandsins samtals um 68,8 milljarða evra á árabilinu 2015-2020.

Hins vegar muni þjóðarframleiðsla aðildarríkjanna aukast samtals um 126,6 milljarða evra á sama tímabili.

„Þannig mun hver evra, sem fjárfest er í aðstoð við flóttafólk, gefa af sér nærri tvær evrur í efnahagslegum ávinningi á innan við fimm árum,“ segir í skýrslunni.

Þetta er viðbótarhagvöxtur upp á 0,25 prósent á þessum fimm árum. Aukningin verður mest í þeim löndum, sem tekið hafa við flestu flóttafólki, nefnilega Austurríki, Svíþjóð og Þýskalandi. Hagvaxtaraukningin þar gæti numið 0,5-1,1 prósenti.

„Meginboðskapur þessarar rannsóknar,“ segir í skýrslunni, „er að bæði þeir sem móta stefnuna og þeir sem sjá um framkvæmdina ættu að hætta að líta á flóttafólk sem „byrði“ sem þurfi að skipta á milli sín, heldur frekar sem tækifæri sem beri að fagna.“

Höfundur skýrslunnar, Philippe Legrain, segir í viðtali við breska blaðið The Guardian að þessi misskilningur, að flóttafólk sé byrði á viðtökulöndunum, sé afar útbreiddur:

„Og þetta er ranghugmynd sem meira að segja þeir eru haldnir, sem eru hlynntir því að taka við flóttafólki, og telja að flóttafólk kosti mikið fé en það sé samt rétt að taka við því.“

Auknar byrðar af völdum flóttafólks séu aðeins til skamms tíma, því til lengri tíma litið styrki það efnahag ríkjanna.

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 19. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×