Skoðun

Kröfur aldraðra í dag

Björgvin Guðmundsson skrifar
Kaflaskipti eru í kjaramálum eldri borgara um þessar mundir. Helstu baráttumál aldraðra í dag eiga að vera þessi:

Lífeyrir aldraðra, sem einungis hafa lífeyri frá almannatryggingum, á að vera 400 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt. Það þýðir 320 þúsund kr. á mánuði eftir skatt. Hér er miðað við einhleypinga. Þessi upphæð er alveg samhljóða upphæð meðaltalsneyslu einhleypinga samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar en niðurstaða þeirrar könnunar var 321 þúsund kr. á mánuði, án skatta.

Könnuð er meðaltalsneysla einhleypinga í landinu. Hagstofan kannar einnig meðaltalsneyslu heimila. Velferðarráðuneytið kannaði dæmigert neysluviðmið og studdist við neyslukönnun Hagstofunnar.

Eru 321 þúsund krónur á mánuði of mikið til framfærslu fyrir aldraða? Nei, því fer víðs fjarri. Þessi upphæð er síst of há og í rauninni er erfitt að framfæra sig af lægri upphæð. Upphæðin, sem Tryggingastofnun skammtar öldruðum í dag er hins vegar alltof lág, 207 þúsund kr. á mánuði hjá einhleypingum; sú upphæð á að hækka upp í 227 þúsund á mánuði um áramót. Upphæðin hjá giftum og sambýlisfólki er aðeins 185 þúsund kr. í dag; hækkar í 196 þúsund um áramót. Þessi upphæð er furðulega lág og óskiljanlegt hvernig hún hefur ratað á blað. Hér er í öllum tilvikum rætt um upphæðir eftir skatt.

Nýja upphæðin, sem koma á til framkvæmda um áramótin, er strax orðin úrelt. 196 þús. kr. á mánuði duga hvergi nærri til framfærslu. Hæpið að 227 þúsund á mánuði hjá einhleypingum dugi. Hér er svo naumt skammtað, að það er til skammar. Athugum, að hér er um nýja upphæð að ræða, sem á að vera betri en gamla upphæðin; framförin er sáralítil sem engin.

Við kaflaskipti í kjaramálum aldraðra þarf einnig að gera stórsókn til þess að „endurheimta“ lífeyri lífeyrissjóðanna, sem daglega er óbeint verið að hrifsa af okkur með stórfelldum skerðingum lífeyris almannatrygginga. Þessu verður að linna strax. Ég tel, að afnema verði skerðingarnar alveg, annaðhvort í einu eða tvennu lagi. Það gengur ekki lengur, að þeir sem greitt hafa í lífeyrissjóð alla sína starfsævi vakni upp við það á lífeyrisaldri, að ríkið taki óbeint af lífeyrissparnaðinum stórar fúlgur.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×