Viðskipti innlent

Ríkið þyrst í vodkann

Þorgeir Helgason skrifar
Áfengisgjald á sterku áfengi hefur nánast tvöfaldast frá hruni.
Áfengisgjald á sterku áfengi hefur nánast tvöfaldast frá hruni.

Ríkið mun taka í sinn hlut 94 prósent af verði vodkaflösku úr Vínbúðinni í formi áfengisgjalds, skilagjalds, virðisaukaskatts og álagningar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.

Þetta kemur fram í samantekt Félags atvinnurekenda á verðlagningu áfengis hér á landi með tilliti til boðaðra hækkana í fjárlagafrumvarpinu.

„Þessi staða hér á innlendum markaði er með ólíkindum. Ég efast um að fólk hafi hugmyndaflug í að átta sig á því að það sé að greiða 94 prósent af verðinu til ríkisins þegar það kaupir vodkaflösku úti í búð,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Áfengisgjöld á Íslandi eru nú þegar þau langhæstu í Evrópu og stefnt er að því að hækka þau enn frekar eða um 4,7 prósent í fjárlagafrumvarpi ársins 2017.

„Þetta er tíunda hækkun áfengisgjalda frá hruni. Á þeim tíma hafa þau rúmlega tvöfaldast. Eru engin takmörk fyrir því hversu langt stjórnvöld telja sig geta gengið í skattlagningu á einni neysluvöru?“ spyr Ólafur.
Fyrir hrun voru áfengisgjöld á Íslandi þau hæstu í Evrópu. Með veikingu íslensku krónunnar eftir hrun breyttist staðan og áfengi varð dýrast í Noregi.

Breytingin á gjöldunum um áramótin auk styrkingar krónunnar mun hins vegar hafa í för með sér að áfengisgjöld verða helmingi hærri hér á landi en í Noregi.

Álagning ÁTVR á áfengi sem inniheldur 22 prósent vínanda eða meira er tólf prósent. Virðisaukaskatturinn er ellefu prósent og áfengisgjaldið um 145 krónur á hvert prósent vínanda. 

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Vísir

Það þýðir að þegar hækkun á áfengisgjöldum tekur gildi um áramótin renna 94 prósent af 7.300 króna vodkaflösku í ríkissjóð.

Áfengisgjaldið af flöskunni eru rúmar 5.400 krónur, virðisaukaskattur um 700 krónur, álagning ÁTVR um 700 krónur og skilagjald 20 krónur. Hlutur framleiðandans er hins vegar aðeins um 434 krónur.

„Hugmyndaauðgi stjórnmálamannanna okkar í hvernig hægt sé að skattpína neytendur áfengis er alveg ótrúleg. Skattlagning á áfengi er augljóslega komin út úr öllu korti þegar neytandinn er farinn að greiða um og yfir 90% af verðinu í ríkissjóð,“ segir Ólafur.

Hann skorar á nýtt þing að samþykkja ekki þessa vitleysu og vinda fremur ofan af þessum ofursköttum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIK
2,75
23
450.310
REGINN
2,19
14
342.698
ICEAIR
2,1
26
150.345
HAGA
2,02
5
64.712
SKEL
1,62
5
101.370

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
-0,83
5
1.252.011
ARION
-0,66
11
179.834
KVIKA
-0,48
2
4.035
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.