Skoðun

Nestisbox 2.1

Ívar Halldórsson skrifar
Barnakosningarnar yljuðu mér um kosninga-hjartarætur í kosningasjónvarpinu um daginn. Það var frábært að sjá upplýsingaþyrsta krakka rýna í pólitíkina og mynda sér skoðun á því hverjir væru, að þeirra mati, best til þess fallnir að stýra þjóðarskútunni okkar. 

En betur má ef duga skal.

Persónulega hefur mér fundist áhugi og skilningur komandi kynslóðar á stjórnmálum vera af skornum skammti í þjóðfélagi okkar. Meira að segja margt fólk sem komið er á eða yfir tvítugsaldurinn hefur nánast engan skilning á stefnu stjórnmálaflokkanna. Það veldur manni einnig óneitanlega áhyggjum þegar fólk á tvítugsaldri veit ekki hver forsætisráðherra, fjármálaráðherra eða forseti Íslands er. Öxlum er gjarnan yppt og áhuginn í of mörgum tilfellum nánast enginn. 

Áhuginn kemur auðvitað ekki með aldrinum einum og sér. Það þarf markvisst að fræða unga fólkið um mikilvægi þess að kjósa rétt - að það er ekki sama hverjir fá umboð til að taka stóru ákvarðanirnar fyrir þjóð okkar. 

Mér þætti skynsamlegt að sjá grunnskólana taka meiri þátt í að styrkja stoðir þjóðfélagslegrar og pólitískrar meðvitundar komandi kynslóða. Hlutverk grunnskóla er að undirbúa einstaklinga undir lífið. Lestur, reikningur, saga og líffræði eru mikilvægir múrsteinar í þekkingarvegginn. En að mínu mati þarf að styrkja þennan vegg enn betur. Skilningur ungs fólks á innlendum stjórnmálum er gífurlega mikilvægur. Um leið og það fær kosningarétt þarf þetta unga fólk að geta kosið með festu þann flokk sem það telur geta mótað besta farveginn fyrir þá þekkingu sem það hefur þegar aflað sér í undirstöðunámi. 

Grunnskólar þurfa að tryggja börnum okkar gott og fjölbreytt vegarnesti fyrir lífið hér á landi. Klárlega hljóta uppfærð undirstöðuatriði í íslenskum stjórnmálum að vera ómissandi í nestisboxið. Ég er viss um að þátttaka í kosningum yrði betri ef betur væri haldið á spöðunum í þessum efnum. Menntamálaráðuneytið mætti kannski halda fund um hvort tímabært sé að uppfæra nestisbox grunnskólabarna, og menntskælinga, þegar kemur að grunnþekkingu á íslenskum stjórnmálum. 

Þá er eitt annað sem mætti að mínu mati kenna unga fólkinu okkar í grunnskólum; en það er hvernig á að sækja um starf. Maður verður var við að þverskurður umsækjenda er lítið upplýstur um hvernig á að bera sig að í atvinnuviðtali. Illa útfylltar umsóknir eru afhendar af ungu fólki sem mætir niðurlútt inn á skrifstofu starfsmannastjóra; ógreitt í skítugum fötum og jafnvel með headphone í eyrunum í atvinnuviðtalinu sjálfu. Því miður er það orðið mun sjaldgæfara nú á dögum en áður var að sjá snyrtilegar, vel lyktandi og sjálfsöruggar ungar manneskjur sækja um störf með faglega ferilskrá í farteskinu. 

Unga fólkið byrjar snemma að taka þátt í atvinnulífinu. Margir ungir einstaklingar fá sér vinnu samhliða námi í grunnskóla eða menntaskóla. En það virðist þó ekki hafa fengið þann stuðning sem það í raun þyrfti til að geta fetað sín fyrstu skref með reisn inn á braut atvinnulífsins. Það er að mínu mati kominn tími til að uppfæra veganestisboxið hjá ungu kynslóðinni og búa arftaka okkar betur undir íslenskt þjóðlíf. 

Allir þeir sem áttu þátt í að gera barnakosningarnar að veruleika í kosningarsjónvarpinu um daginn eiga svo sannarlega hrós skilið! Þetta er vonandi forsmekkur á frekari farsæld í þessum efnum. 

Vonandi verður Nestisbox 2.1 kynnt til leiks fljótlega.

 




Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×