Skoðun

Menntun er forsenda bættra lífskjara

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir skrifar

Menntun er undirstaða framþróunar og þekking er forsenda aukinnar framleiðni, velferðar og verðmætasköpunar. Atvinnurekendur vilja axla ábyrgð þegar kemur að menntamálum. Tryggja þarf að fyrirsjáanlegri þróun og þörf atvinnulífsins sé mætt í menntakerfinu með aukinni áherslu á iðn-, verk- og tækninám á öllum skólastigum enda er nýliðun í ýmsum greinum nú þegar orðin áhyggjuefni og gæti orðið enn meira vandamál í framtíðinni ef ekki er brugðist við.



Mikil eftirspurn er eftir starfsmönnum sem hafa ýmiskonar iðnmenntun og því er ljóst að auka þarf áherslu á menntun í iðn-, verk- og tæknigreinum til að mæta þörfum atvinnulífsins. Á sama tíma er mikilvægt að kerfislægur vandi í íslensku menntakerfi sé leiðréttur enda má hann ekki verða hindrun þegar námsleiðir eru valdar. Tryggja þarf skýrar leiðir til náms á háskólastigi að loknu iðnnámi, t.d. í gegnum fagháskólanám. Einnig þarf að tryggja að nemendur sem hefja nám í iðngreinum geti lokið samningi og bóklegu námi á áætluðum tíma með því að hafa samning við meistara. Stuðla ætti að því að framhaldsskólar fái úthlutað því fjármagni sem þarf til að halda úti námi í iðn-, verk- og tæknigreinum. Við verðum að auka hlutfall grunnskólanemenda sem velja slíka menntun og vinna markvisst að því að það nám verði metið til jafns við bóknám.



Um leið og unnið er að því að efla grunnmenntun í iðn-, verk- og tæknigreinum er brýnt að huga vel að því með hvaða hætti má fjölga þeim sem velja raunvísindi og tæknigreinar á háskólastigi. Það takmarkar framleiðslugetu margra fyrirtækja að þau búa við skort á fagmenntuðu og sérhæfðu starfsfólki á öllum skólastigum. Það er mikilvægt að setja í forgang vinnu við að undirbyggja tækifæri til aukinnar framleiðni og verðmætasköpunar með því að efla menntun sem mætir fyrirsjáanlegri þróun í atvinnulífinu.

Við viljum að menntastefna sé í takt við atvinnustefnu þar sem greindar eru framtíðarþarfir atvinnulífsins og samfélagsins fyrir hæfni og þekkingu fólks. Það kallar á virkt samstarf við ráðuneyti menntamála, allra skólastiga og annarra hagsmunaaðila í menntamálum. Það er hagur okkar allra að menntamálin fái veglegan sess í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar því öflugt menntakerfi er fjárfesting til framtíðar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×