Skoðun

Kosningaloforðin við aldraða frá 2013 svikin!

Björgvin Guðmundsson skrifar
Nú er stutt orðið í alþingiskosningar en þær verða 29. október. Athyglisvert er, að þegar komið er að alþingiskosningum 2016, eru stjórnarflokkarnir ekki enn farnir að efna stærstu kosningaloforðin, sem þeir gáfu fyrir kosningarnar 2013! Frambjóðendur til Alþingis virðast telja, að þeir geti lofað öllu fögru fyrir kosningar og svikið síðan loforðin.

Stjórnarflokkarnir gáfu stór kosningaloforð fyrir síðustu alþingiskosningar: Þeir lofuðu að hækka lífeyri til samræmis við hækkun lægstu launa á krepputímanum. Þetta var tekið mjög skýrt fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013. Á flokksþingi Framsóknarflokksins var samþykkt að leiðrétta lífeyri vegna kjaragliðnunar krepputímans. Með kjaragliðnun er átt við það, þegar laun hækka meira en lífeyrir. Ríkisstjórnin hefur ekki lyft litla fingri í því að efna þetta stóra kosningaloforð. Það hefur gersamlega verið svikið.

Það er alvarlegt mál. Nú hafa kjósendur tækifæri til þess að refsa þeim fyrir svikin.

Stjórnarflokkarnir lofuðu einnig að afturkalla kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja frá árinu 2009. Þar var um sex atriði að ræða. Núverandi ríkisstjórn afturkallaði tvö þessara atriða á sumarþinginu 2013: Frítekjumark vegna atvinnutekna, sem hafði verið lækkað, var hækkað á ný í 109 þúsund kr. á mánuði. Grunnlífeyrir, sem hafði verið skertur hjá þeim efnameiri 2009, var leiðréttur á ný. Þessi tvö atriði voru ódýr fyrir ríkissjóð og gögnuðust þeim sem voru vel staddir. Annað gerði ríkisstjórnin ekki þá og gerði ekki meira til þess að efna kosningaloforð, sem hún hafði gefið öldruðum og öryrkjum. Eitt atriði af þessum sex rann út af sjálfu sér. Það var tímabundið; hækkun á skerðingarhlutfalli tekjutryggingar. Sú hækkun gekk til baka 2014.

Svik

Bjarni Benediktsson gaf öldruðum stórt kosningaloforð í bréfi 2013. Hann lofaði að afnema alla tekjutengingu lífeyris aldraðra. Þetta var stórt kosningaloforð; skerðingar valda öldruðum mikilli kjaraskerðingu. Bjarni hefur ekki efnt þetta loforð. Þetta loforð þýðir afnám skerðingar lífeyris aldraðra vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og vegna tekna af atvinnu og fjármagni. Það litla, sem var gert til leiðréttingar útreiknings grunnlífeyris, skiptir litlu máli í þessu sambandi. Eftir sem áður voru framkvæmdar miklar skerðingar á lífeyri aldraðra hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Allur fjöldinn, sem var með lítinn lífeyrissjóð eða í meðallagi stóran, sætti mikilli skerðingu. Og tekjutengingar vegna tekna af fjármagni og atvinnu í fullu gildi. Ekki hefur verið staðið við kosningaloforð Bjarna Benediktssonar við aldraða. Það litla, sem ríkisstjórnin leiðrétti á sumarþinginu 2013 er tekið til baka í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um almannatryggingar. Grunnlífeyrir felldur niður og frítekjumark vegna atvinnutekna afnumið!

Yfirskrift fráfarandi ríkisstjórnar er : Svik, svik, svik.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×