Viðskipti innlent

Miðstöð fiskeldis verður á Ísafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. Vísir/Pjetur
Sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun verður staðsettur á Ísafirði, ásamt sérfræðingum, samkvæmt ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með þessari ákvörðun ráðherrans má segja að mörkuð sé sú stefna að Ísafjörður verði miðstöð fiskeldismála.

Ráðuneytið segir að það sé í takti við tillögur nefndar um átak í byggðamálum á Vestfjörðum, sem lögð var fram í ríkisstjórn í lok síðasta mánaðar. Gunnar Bragi Sveinsson hefur jafnframt ákveðið að hafin skuli vinna við heildar stefnumótun fyrir fiskeldi á Íslandi og að rannsóknir, vöktun og eftirlit skuli aukið.

Matvælastofnun hefur nýlega ráðið eftirlitsmann á Austfjörðum og á næstu dögum verður auglýst eftir eftirlitsmanni á Vestfjörðum. Auk þess munu tveir sérfræðingar á vegum Hafrannsóknastofnunar verða ráðnir til starfa á Ísafirði til að rannsaka lífríki hvers fjarðar og meta burðarþol þeirra gagnvart fiskeldi. Sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun verður staðsettur á Ísafirði frá árinu 2018, að því er fram kemur í frétt frá ráðuneytinu.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.Vísir/Stefán
„Fiskeldi er vitanlega mjög spennandi atvinnugrein, um 40% af fiski sem neytt er í heiminum í dag er eldisfiskur og við höfum séð mikinn vöxt bæði í Færeyjum og Noregi,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson á vef ráðuneytisins. 

„Það eru vissulega mikil sóknarfæri í eldi hér á landi – en við megum ekki fara framúr okkur og verðum að gera hlutina bæði vel og rétt. Við höfum tekið upp ströngustu norsku staðla og erum að stórauka bæði rannsóknir og eftirlit. Jafnframt erum við að setja af stað vinnu við heildar stefnumótun í greininni og vona ég að hún muni liggja fyrir næsta vor,“ segir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Ráðuneytið segir fiskeldi ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Á seinustu árum hafi fiskeldi stóraukist, bæði í sjó og landi hérlendis, og nefnir tegundirnar lax, regnbogasilung, bleikju og senegal flúru. Mikilvægt sé að skilyrði og umgjörð um greinina séu eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt bæði við samfélag og umhverfi.


Tengdar fréttir

Sjá umhverfisvænt fiskeldi sem lyftistöng Vestfjarða

Helsta fiskeldisfyrirtæki Vestfjarða, Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal, hefur nú sótt um að hefja eldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi eftir margra ára bið eftir leyfi til laxeldis.

Laxeldi á Vestfjörðum eins og ígildi álvers

Uppbygging laxeldis stefnir í að hafa sambærileg og jafnvel meiri áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum og stóriðjuframkvæmdirnar höfðu fyrir Austurland, segir bæjarstjóri Vesturbyggðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×