Skipið lagði upp frá bænum Seward, sunnan Anchorage, í Alaska þann 16. ágúst með um 900 farþega um borð og 600 manna áhöfn. Siglingaleiðin lá um Beringssund, síðan austur með norðurströndum Alaska og Kanada og suður meðfram vesturströnd Grænlands. Á Grænlandi kom skipið við í þremur höfnum, Ilulissat við Diskó-flóa, Sisimiut og höfuðstaðnum Nuuk, áður en lagt var í lokaáfangann suður Labradorhaf og til New York.

Crystal Serenity þykir eitt af íburðarmeiri skemmtiferðaskipum heimshafanna; með sundlaug, heitum pottum, spilavíti, kvikmyndasal og sex veitingastöðum. Það er 69 þúsund tonn að stærð og 250 metra langt og með þrettán þilför. Ódýrasta fargjald norðvesturleiðina kostaði 2,5 milljónir króna og það dýrasta tæpar 14 milljónir króna. Siglingin þykir hafa heppnast það vel að skipafélagið er þegar byrjað að selja farmiða í næstu ferð sömu leið sumarið 2017.
Norðmaðurinn Roald Amundsen fór fyrir fyrsta leiðangrinum sem heppnaðist að sigla norðvesturleiðina á árunum 1903 til 1906. Hún þótti illfær allt til ársins 2009 en þá var hlýnun sjávar búin að bræða nægilegar glufur í hafísinn. Crystal Serenity er þó ekki stærsta skipið til að sigla um þessar slóðir því árið 2013 sigldi 73.500 tonna danskt flutningaskip, Nordic Orion, þessa sömu leið.