Handbolti

Narcisse kom í veg fyrir að Dagur og lærisveinar hans færu í úrslitin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Narcisse skorar eitt af sjö mörkum sínum gegn Þjóðverjum.
Narcisse skorar eitt af sjö mörkum sínum gegn Þjóðverjum. vísir/getty
Daniel Narcisse tryggði Frökkum sigur á Þjóðverjum, 29-28, í fyrri undanúrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í Ríó í kvöld.

Frakkar voru með undirtökin lengst af en með strákarnir hans Dags Sigurðssonar komu sér inn í leikinn með frábærum endaspretti.

Tobias Reichmann jafnaði metin í 28-28 þegar rúm mínúta var eftir. Frakkar fóru í sókn en tóku fljótlega leikhlé. Eftir langa sókn skoraði Narcisse svo sigurmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Dagur og félagar þurfa því að gera sér að góðu að leika um bronsið á meðan Frakkar eiga enn möguleika á að vinna til gullverðlauna á þriðju Ólympíuleikunum í röð.

Narcisse var markahæstur í franska liðinu með sjö mörk en Valentin Porte kom næstur með fimm mörk.

Uwe Gensheimer, fyrirliði Þýskalands, átti frábæran leik og skoraði 11 mörk úr 12 skotum. Julius Kuhn var næstmarkahæstur hjá Þjóðverjum með átta mörk. Þá átti Silvio Heinevetter flotta innkomu í markið og varði níu skot (53%) á þeim rúmu 20 mínútum sem hann spilaði.

Það kemur í ljós seinna í kvöld hvort það verða lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu eða Pólverjar sem mæta Frökkum í úrslitaleiknum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×