Gísli Sveinbergsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir leiða eftir fyrsta hringinn á Borgunarmótinu á Eimskipsmótaröðinni. Leikið er á Hvaleyrarvelli og er keppt um Hvaleyrarbikarinn í fyrsta sinn.
Gísli er með eins höggs forystu eftir fyrsta keppnisdaginn í karlaflokki. Gísli lék fyrsta hringinn á 69 höggum, eða tveimur höggum undir pari.
Kristján Þór Einarsson og Axel Bóasson koma næstir á einu höggi undir pari. Benedikt Sveinsson er svo í 4. sæti.
Í kvennaflokki er Guðrún Brá með forystu en hún lék á 75 höggum í dag, eða fjórum höggum yfir pari.
Berglind Björnsdóttir kemur næst á fimm höggum yfir pari. Signý Arnórsdóttir og Særós Eva Óskarsdóttir eru svo jafnar í 3. sæti á átta höggum yfir pari.
