Golf

Stenson leiðir tveggja hesta kapphlaup á opna breska

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Henrik Stenson púttar fyrir fugli.
Henrik Stenson púttar fyrir fugli. vísir/getty
Sænski kylfingurinn Henrik Stenson er í forystu eftir níu holur á lokakeppnisdegi opna breska meistaramótsins í golfi. Hann er einu höggi á undan Bandaríkjamanninum Phil Mickelson.

Stenson, sem hefur aldrei unnið risamót á ferlinum, var með eins höggs forskot fyrir lokadaginn en tveggja högga sveifla varð strax á fyrstu holu þegar Stenson fékk fugl en Mickelson fugl.

Stenson bætti heldur betur upp fyrir það og fékk þrjá fugla á næstu þremur holum og fimm fugla í heildina á næstu átta holum. Hann kláraði fyrri níu á 32 höggum og er á fjórum höggum undir í dag og 16 höggum undir í heildina.

Mickelson bætti erni á fjórðu holu og öðrum fugli á sjöttu holu og er á fjórum undir í dag alveg eins og Stenson. Hann hefur ekki enn fengið skolla og er á fimmtán höggum undir pari eða höggi á eftir Svíanum.

Þessi tveir kappar háðu mikla baráttu um Silfurkönnuna á opna breska meistaramótinu fyrir þremur árum en þá hafði Mickelson betur. Það var hans fyrsti og eini sigur á opna breska en Stenson á engan risatitil að baki.

Næsti maður á eftir þeim tveimur er JB Holmes frá Bandaríkjunum. Hann er á sjö höggum undir pari eftir tíu holur þannig þetta verður tveggja hesta kapphlaup þar til yfir lýkur.

Hér má sjá stöðuna í mótinu en bein útsending stendur yfir á Golfstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×