Innlent

Landbúnaðarháskólinn axlar loftslagsverkefni

Svavar Hávarðsson skrifar
Mikil tækifæri eru til að binda koldí­oxíð úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu.
Mikil tækifæri eru til að binda koldí­oxíð úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Vísir/GVA
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), skrifuðu fyrir helgi undir tvo samninga um verkefni sem LbhÍ sinnir varðandi verkefni í sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Annar samningurinn snýr að bókhaldi um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu koldíoxíðs í gróðri og jarðvegi. Hinn samningurinn snýr að upplýsingagjöf og greiningu fyrir vegvísi um minnkun losunar frá landbúnaði í samvinnu ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands.

Landbúnaður og landnotkun hefur áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, en einnig eru þar tækifæri til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti með skógrækt, landgræðslu og fleiri aðgerðum. Skylda er að telja fram losun af þessu tagi samkvæmt Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og heimilt er að telja sér til tekna tilteknar aðgerðir í kolefnisbindingu samkvæmt ákvæðum Kýótó-bókunarinnar.

Loftslagsbókhald tengt landbúnaði og landnotkun er um margt flóknara en fyrir aðra þætti, s.s. orkunotkun og iðnað, og krefst góðrar vísindalegrar undirstöðu. Mikil þekking á þessu sviði er í LbhÍ. Meðal annars hafa sérfræðingar skólans sýnt fram á mikla losun frá framræstu votlendi og á grundvelli þeirra rannsókna fékk Ísland samþykkt á vegum Kýótó-bókunarinnar að ríki gætu talið sér endurheimt votlendis til tekna.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að þess sé vænst að samningarnir við LbhÍ muni styðja við stefnu Íslands í loftslagsmálum.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu 13. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×