Innlent

Lögreglumenn beittu útsjónarsemi og elju til að finna þjófa á Selfossi

Birgir Olgeirsson skrifar
Það var í mörg horn að líta hjá lögregluni á Suðurlandi í síðustu viku.
Það var í mörg horn að líta hjá lögregluni á Suðurlandi í síðustu viku. Vísir/HARI
„Lögreglumenn lögðust í talsverða vinnu til að finna þjófinn og uppskáru að lokum, af útsjónarsemi og elju, með því að upplýsa flesta þjófnaðina,“ segir í færslu lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook. Þar er greint frá því að tilkynnt hafi verið um 13 minni háttar þjófnaði á Selfossi í liðinni viku. Tengdist einn einstaklingur nokkrum þeirra en hann hnuplaði varningi í verslunum og stal munum í íbúðarhúsum.

Þá fengu lögreglumenn á Höfn ábendingu um mann sem átti að vera með mikið magn af kannabisefnum í sinni vörslu. Lögreglan segir manninn hafa heimilað húsleit þar sem engin efni fundust en lögreglan lagði hins vegar hald á rafbyssu og var maðurinn kærður fyrir brot á vopnalögum.

Á Selfossi komu upp fimm fíkniefnamál en lögreglan á Suðurlandi segir fíkniefnahundinn Vinkil á Litla Hrauni og þjálfar hans hafa verið að störfum fyrir lögreglu þar sem farið var um tjaldsvæði á Selfossi og utan við skemmtistaði. Í fjórum tilvika merkti Vinkill efni. Kannabisefni sem bíleigandi hafði falið í púströri bíls síns fór ekki fram hjá Vinkli en lögreglan á Suðurlandi segir þefvísi hundsins hafa reynst óskeikul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×