Innlent

Áður heilbrigðir eru greindir geðsjúkir

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Allen Frances deilir á ofnotkun greininga sem hann segir þjóna lyfjaiðnaði.
Allen Frances deilir á ofnotkun greininga sem hann segir þjóna lyfjaiðnaði. vísir/anton
Allen Frances er gagnrýninn á greiningakerfi geðlæknisfræðinnar. Hann telur lyf gegna of veigamiklu hlutverki í meðferð.vísir/anton
„Aldous Huxley spáði fyrir þessari þróun fyrir mörgum árum þegar hann sagði: Framþróun nútíma læknisfræði er svo undraverð að brátt verður ekkert okkar heilbrigt,“ segir Allen Frances. Þekktur bandarískur geðlæknir, fyrirlesari og höfundur bókarinnar Saving Normal. Hann er hér til að flytja fyrirlestur á málþingi Geðhjálpar; Hefur okkur borið af leið…? á Grand Hóteli á morgun, 15. júní.

Þar fjallar Frances um ofgreiningar, yfir- og undirþjónustu og ofneyslu lyfja. Hann er þekktastur fyrir að tala opinberlega gegn of ítarlegum greiningum sem hann segir þjóna lyfjaiðnaði frekar en fólki.

Hann segir marga sem áður voru álitnir heilbrigðir greinda með geðsjúkdóma, þjáning hversdagsins verið gerð að geðröskunum og allt of oft meðhöndluð með lyfjum.

„Áttatíu prósent geðlyfja eru uppáskrifuð af heimilislækni sem hefur hvorki þjálfun né tíma til að kynnast sjúklingnum og er líka undir þrýstingi lyfjafyrirtækja,“ segir Allen Frances. Helst séu það börn og konur sem séu ofmeðhöndluð.

Skortur á viðtalsmeðferð

Þórgunnur Ársælsdóttir geðlæknir er einn geðlækna sem tekur þátt í málþinginu og segir skort á aðgengi viðtalsmeðferð. „Áhersla á lyfjameðferð hefur verið of mikil hér á landi. Ein af ástæðunum fyrir því er tvímælalaust slakt aðgengi að viðtalsmeðferð í grunnheilbrigðisþjónustunni,“ segir Þórgunnur og segir viðhorf fólks til vanlíðunar einnig skipta máli. „Það getur líka skýrst af þrýstingi á að laga hlutina fljótt, og óþoli gagnvart vanlíðan og þjáningu. Það gleymist stundum í umræðunni að það að finna til og þjást er eðlilegur hluti af því að vera manneskja.“

Sorg er ekki þunglyndi

Þórgunnur tekur undir með Allen og nefnir dæmi um vanlíðan og þjáningu sem líkist geðsjúkdómum og röskunum en eru það ekki. „Sorg í kjölfar ástvinamissis getur til dæmis líkst þunglyndi, en er það þó ekki, heldur eðlileg viðbrögð við missi. Það að vera utan við sig og gleyminn, einbeitingarlaus og fljótfær, þarf ekki að þýða að maður hafi athyglisbrest,“ segir Þórgunnur og segir fræði Allen áhugaverð og vekja upp þarfa umræðu.



„Það voru gríðarlegar framfarir í meðferð geðsjúkra á síðustu öld og einn veigamesti liðurinn var framþróun í lyfjameðferð. Lyf geta verið gríðarlega mikilvæg í alvarlegum veikindum og geta verið hjálpleg í leið til bata,“ segir Þórgunnur.

Auðna Ýr Oddsdóttir hefur náð að fóta sig en læknir hennar fer eftir kenningu um valdeflingu. Hlustað er á hennar þarfir.vísir/anton
Aldrei neydd til neins

Auðna Ýrr Oddsdóttir veiktist í kjölfar kannabisneyslu á unglingsárum. Batasaga hennar er gott dæmi um það hversu margir þættir aðrir en lyf stuðla að bata.

Eftir neysluna missti hún tökin á námi sínu og einangraðist félagslega. Hún fékk einnig svokölluð síðhvörf, ofskynjanir og mikil óþægindi.

Auðna fann fyrir markverðum árangri eftir að farið var að vinna eftir kenningum valdeflingar í meðferð hennar.

„Ég var aldrei neydd til neins og kenning um valdeflingu er nokkuð sem læknirinn minn hefur fylgst með. Það er komið til móts við fólk með geðsjúkdóma. Ég treysti ráðum læknisins, fékk ráðgjöf hjá félagsráðgjafa menntuðum í fjölskyldutengslum, fór í iðjuþjálfun og fór að huga að námi en á mínum eigin hraða,“ segir Auðna frá. Hún gerði margt fleira til að vinna í bata, breytti um mataræði, jók við hreyfingu og bætir sífellt við sig í vinnu.

„Allt þetta, uppbyggingin, fæðið og hreyfingin hefur góð áhrif,“ segir Auðna sem er komin í 90 prósenta starf. „Ég var að finna á heimili fyrir fatlaða en er að skipta yfir í geðgeirann, mér finnst góð tilhugsun að gefa af mér til baka,“ segir hún.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. júní.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×