Innlent

Erfið björgunaraðgerð í Nesskriðum í nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Um 30-40 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum í nótt.
Um 30-40 björgunarsveitarmenn tóku þátt í aðgerðum í nótt. Vísir
30-40 björgunarsveitarmenn frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri voru kallaðir út á tólfta tímanum í gærkvöldi til að koma erlendu pari en það hafði komist í sjálfheldu í Nesskriðum við austanverðan Siglufjörð. Ferðamennirnir höfðu komið fógangandi úr Héðinsfirði og ætluðu til Siglufjarðar.

Á svæðinu er bratt fjalllendi niður í sjó að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni og var því afar erfitt að komast að fólkinu. Björgunaraðilar voru því fluttir á bátum að fjallinu og notuðu þeir dróna til að kanna aðstæður og velja uppgönguleið.

Aðstæður reyndust það erfiðar að íhugað var að fá þyrlu til aðstoðar en ákveðið var að reyna landleiðina fyrst. Þá tók við erfið klifur-og línuvinna og komust fyrstu menn að fólkinu um klukkan tvö í nótt. Það var svo um klukkan fimm í nótt sem komið var með fólkið að landi á Siglufirði.

Ferðamennirnir, 35 ára gamall karlmaður og 31 árs gömul kona, voru ómeidd en mjög brugðið eftir þessa lífsreynslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×