Innlent

Endanlegur kostnaður við Hörpu tæpur 21 milljarður

Birgir Olgeirsson skrifar
Heildarkostnaður varð um 875 milljónum krónum hærri.
Heildarkostnaður varð um 875 milljónum krónum hærri. Vísir
Endanlegur byggingarkostnaður tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu var um 20,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Haraldar Einarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um byggingarkostnað Hörpu.

Í svari ráðherra kemur fram að þegar ríkið tók yfir byggingu Hörpu í mars árið 2009 var gert ráð fyrir að kostnaður við að ljúka framkvæmdum yrði um 14,5 milljarðar króna með vöxtum á byggingartíma eða rétt tæplega 20 milljarðar króna miðað við verðlag í mars 2015. 

Heildarkostnaður varð um 875 milljónum krónum hærri, uppreiknað með vísitölu byggingarkostnaðar í maí 2015, sem skýrðist að mestu af óhagstæðara gengi en gert var ráð fyrir í áætluninni og endanlegri niðurstöðu í ágreiningsmálum við verktaka.

Á árinu 2013 til 2014 var ákveðið að innrétta ófrágengin rými á Björtuloftum og Háalofti þannig að hægt væri að auka útleigurými hússins. Kostnaður vegna þessa nam um 134 milljónum króna á verðlagi þess tíma eða um 139 milljónum króna miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í maí 2015.

Á árinu 2015 var ákveðið að innrétta ófrágengin rými á austurhlið hússins til að auka leigutekjur hússins en kostnaður vegna þessa nam um 157 milljónum króna á verðlagi þess árs.

Í svari ráðherra kemur frem að fjármögnunaraðilar, sem veittu einkaaðilanum sem síðar fór í þrot lán til framkvæmdanna, hafi þurft að afskrifa um það bil átta milljarða króna af byggingarkostnaði félagsins eða um 10 milljarða króna á verðlagi í mars árið 2015. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×