Innlent

Stálu rándýrum fatnaði og skarti: Virðast hafa stundað skipulagða glæpastarfsemi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þjófarnir stálu fatnaði og skarti.
Þjófarnir stálu fatnaði og skarti. Vísir/Getty
Tveir erlendir menn eru í haldi lögreglu grunaðir um umfangsmikinn þjófnað á skartgripum og dýrum fatnaði úr fjölmörgum verslunum á Höfuðborgarsvæðinu, í Hafnarfirði og á Suðurnesjum. Bjarni Ólafur Magnússon, lögreglumaður hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir allt benda til þess að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.

„Mennirnir eru í haldi hjá okkur eins og stendur. Það verður metið af ákærusviði í samvinnu við okkur hvert framhaldið verður,“ útskýrir Bjarni. Hann segir að líklega verði sótt um gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur síðar í dag en það er að sjálfsögðu dómara að ákveða að lokum. Mbl greindi frá þessu í dag.

Umfangsmikið mál og frekt á mannafla

Málið er gríðarlega umfangsmikið en mennirnir hafa stolið fatnaði og skartgripum úr fjölmörgum verslunum í þremur sveitarfélögum sem fyrr segir. Hald var lagt á sjö hundruð þúsund króna hring sem dæmi en mest af þýfinu er dýr fatnaður.

Að öllum líkindum verður sótt um gæsluvarðhald yfir mönnunum.vísir/vilhelm
Lögregla framkvæmdi húsleitir í gær og mennirnir verða yfirheyrðir í dag. Frekari vettvangsrannsókna verður þörf í kjölfarið auk þess sem fjölmörg vitni verða kölluð til. 

Bjarni Ólafur staðfestir í samtali við Vísi að um feykilegt magn af munum sé að ræða. Unnið er að því núna að rekja hvaðan munirnir eru en það getur verið þrautin þyngri. 

„Það eru ýmsar verslanir sem hafa kannski ekki áttað sig á því að munirnir eru horfnir og hvað þá hvenær það var og slíkt,“ útskýrir Bjarni. Tveir starfsmenn fara yfir haldlagða muni í dag og næstu daga en um tíu starfsmenn koma að málinu nú á fyrstu dögunum þar sem mikilvægt er að varpa ljósi á ýmis atriði sem ókunnugt er um að svo stöddu. 

Jafnvel í samstarfi við erlend glæpasamtök

„Við höfum bara ákveðinn tímaramma til að vinna fyrstu skrefin. Þess vegna er þetta unni hratt og af miklum massa til að byrja með. Þetta er bæði tímafrekt og frekt á mannafla. Það þarf að skoða hversu marga staði er um að ræða og til hvers langs tíma brotastarfsemin nær,“ nefnir Bjarni. 

Lögregla hefur í nógu að snúast enda er málið viðamikið.Vísir/Hari
Þá þarf lögregla að afla upplýsinga um hvenær mennirnir komu til landsins, hvar þeir hafa dvalið hér á landi og hvert þeir hafa farið. Þá vinnur lögregla úr gögnum tengdum ökutækjum mannanna og eru í samstarfi við starfsmenn Póstsins og Tolleftirlits þar sem þýfið gæti mögulega hafa verið sent úr landi. Mennirnir fóru vítt yfir og hafa stundað glæpastarfsemina um nokkurt skeið. 

„Þeir eru að bera sig það faglega að þessu,“ segir Bjarni sem telur ljóst að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Í framhaldinu verður skoðað hvort mennirnir hafi átt í samstarfi við erlend glæpasamtök, verður sú vinna unnin í samstarfi við Europol og lögregluyfirvöld erlendis.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×