Innlent

Sjúkir fá sjúkrakostnað frá öðru ríki innan EES endurgreiddan

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
EES-ríkið verður þó að veita sömu þjónustu og fæst hér á landi.
EES-ríkið verður þó að veita sömu þjónustu og fæst hér á landi. Vísir/Vilhelm
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um rétt sjúklinga til að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja EES-samningsins og fá endurgreiddan útlagðan kostnað sem svarar því að samsvarandi þjónusta hefði verið veitt hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Reglugerðin hefur þegar tekið gildi en hún á stoð í ákvæði í lögum um sjúkratryggingar sem samþykkt var í mars síðastliðnum. Málið varðar rétt sjúklinga til heilbrigðisþjónustu yfir landamæri sem tryggður er í tilskipun sem sett er á grundvelli EES-samningsins.

Nú geta því sjúkratryggðir einstaklingar sótt heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og fengið kostnaðinn endurgreiddan frá sjúkratryggingum. Ákveðin skilyrði verða þó að vera uppfyllt svo fallist verði á endurgreiðsluna. Þannig getur endurgreiðslan aðeins numið að hámarki þeirri fjárhæð sem samsvarandi þjónusta hefði kostað í íslenska heilbrigðiskerfinu og auk þess er áskilið að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða sem einnig sé veitt hér á Íslandi.

Fleiri skilyrði eru talin upp í tilkynningunni:

„Helstu skilyrði:

Með reglugerðinni er sett sú meginregla að sjúklingur þurfi ekki að sækja um samþykki fyrir að sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis áður en þjónustan er veitt. Frá þessu eru þó undantekningar líkt og kveðið er á um í 9. gr. Þetta á t.d. við ef meðferð krefst innlagnar á sjúkrahús í eina nótt eða lengur, ef meðferð er sérstaklega áhættusöm eða ef ástæða er til að efast um gæði þjónustunnar. Heimilt er að synja sjúklingi um endurgreiðslu kostnaðar við ákveðnar aðstæður.

Þetta á t.d. við ef hægt er að veita þjónustuna hér á landi innan tímamarka sem talin eru réttlætanleg þegar tekið er mið af heilsufarsástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms, ef öryggi sjúklingsins er talið stefnt í hættu eða ef ástæða er talin til að efast um þjónustan standist lágmarkskröfur um öryggi og gæði. Nánar er kveðið á um forsendur synjunar í 11. gr. reglugerðarinnar.

Sjúkratryggður sem staddur er í aðildarríki EES-samningsins getur leitað sér heilbrigðisþjónustu þar á grundvelli reglugerðarinnar. Endurgreiðsla sjúkratrygginga vegna útlagðs kostnaðar sjúklings fer eftir ákvæðum reglugerðarinnar og gildir þá einu hvernig þjónustan er skipulögð, veitt eða fjármögnuð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×