Innlent

Ólafur Ólafsson: Þakkar starfsfólki bráðavaktar eftir þyrluslysið

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Vísir/Jói K
Ólafur Ólafsson, aðaleigandi Samskipa, sá ástæðu til þess að skrifa opið þakkabréf til bráðadeildar Landsspítalans eftir að hann og fjórir aðrir voru fluttur þangað eftir að þyrla hans brotlenti skammt frá Nesjavallavirkjun 22. maí síðastliðinn. Hann kallar slysið „merkilega lífsreynslu“.

Í bréfinu segir hann að fagmennskan hafi ekki leynt sér og að viðmóti starfsfólks og lækna hafi verið róandi og traustvekjandi.

Hann segir þar allan fyrirtækjarekstur byggja á góðu starfsfólki, forgangsröðun verkefna og skilvirkum verkferlum. Hann segist hafa orðið agndofa hvað þessa þætti varðar hjá bráðamóttökunni og segir það ómetanlegt að hafa aðgang að fagfólki sem bregst við af jafn mikilli festu og öryggi.

Þakkir eftir flugslys

Hér fyrir neðan má lesa bréfið í heild sinni;

Það var merkileg lífsreynsla að fylgjast með því öfluga kerfi sem fór í gang á bráðadeild Landspítalans þegar ég og félagar mínir vorum fluttir þangað eftir flugslys á dögunum.

Hópur lækna og hjúkrunarfólks beið okkar á bráðadeildinni og hófst handa um leið og við vorum færðir úr þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti okkur af slysstað. Teymið skoðaði og greindi áverka hjá hverjum og einum á fumlausan hátt. Verkefnum var forgangsraðað, við teknir til rannsóknar, ástand okkar greint og við sendir í myndatökur, skanna eða aðrar þær rannsóknir sem nauðsynlegar voru.

Fagmennskan leyndi sé ekki, vinnubrögðin og viðmótið voru í senn róandi og traustvekjandi. Við vorum sannarlega í góðum höndum, það fundum við strax.

Allur fyrirtækjarekstur byggir á góðu starfsfólki, forgangsröðun verkefna og skilvirkum verkferlum. Ferlafræðina þekki ég vel af minni eigin reynslu af rekstri fyrirtækja minna.  Verklagið á bráðavaktinni var til fyrirmyndar, hver einasti starfsmaður vissi hvert hans hlutverk var og vinnuferlarnir voru hnökralausir.  Hvernig allir þessir þættir unnu saman þennan eftirmiðdag gerðu mig agndofa.

Fagmennskan á Landspítalanum er ekki bundin við bráðadeildina, lega á mismunandi deildum sjúkrahússins sannfærði mig um það. Aðbúnaðurinn og vinnubrögðin voru alls staðar til mikillar fyrirmyndar og starfsfólk Landspítalans bæði faglegt og sérlega alúðlegt.

Það er ómetanlegt að hafa aðgang að fagfólki sem bregst við af jafn mikilli festu og öryggi þegar hér verða óhöpp eða alvarleg slys. Við fundum fyrir famennsku viðbragðsaðila allt frá því við kölluðum á hjálp á slysstað. Af stað fór umfangsmikið útkall meðal björgunarsveita og tugir sjálfboðaliða stóðu upp frá sínum daglegu verkum tilbúnir til leitar og björgunar. Sjúkrabílar og lögregla héldu í átt að slysstað og þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið.

Ég vil þakka öllum sem brugðust við þennan sunnudag í maí, ekki síst læknum og hjúkrunarfólki Landspítalans. Sitt sýnist hverjum um flugferðina, en sú umræða má samt ekki skyggja á það sem við getum sameinast um og verið þakklát fyrir; að búa við öryggi sem felst í heilbrigðisstarfsfólki á heimsmælikvarða.

Takk fyrir mig,

Ólafur Ólafsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×