Skoðun

Holurnar í samfélaginu

Árni Gunnarsson skrifar
Sagt er að íslenskt samfélag standi óvenju vel um þessar mundir. Skuldir eru lágar og tekjur háar. Höfð voru eftir forsætisráðherra eftirfarandi orð :

„Hagkerfið stendur í blóma, kaupmáttur vex hröðum skrefum og verðbólga hefur í meira en tvö ár verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Mikill afgangur er á ríkissjóði, skuldir ríkisins lækka hratt og erlend staða þjóðarbússins hefur aldrei verið betri. Aldrei.“

Gott ef satt er, en þessi lýsing nær samt ekki til þeirra sem allra verst eru settir í samfélaginu.

Það eru víðar holur í samfélaginu en á götum borgarinnar.

Rauði krossinn hefur einbeitt sér að því að þjóna þeim einstaklingum sem eru berskjaldaðir í samfélaginu. Orðið berskjaldaður þýðir m.a. að vera óvarinn, hlífðarlaus.

Á hverjum mánuði sinnir Rauði krossinn um 130 heimsóknum sprautufíkla, sem margir eru á vergangi, og býður þeim skaðaminnkandi ráðgjöf með aðstoð sjálfboðaliða úr hópi heilbrigðisstarfsmanna.

Rauði krossinn rekur Konukot í samkomulagi við Reykjavíkurborg en það er athvarf fyrir heimilislausar konur. Þar er boðið upp á kvöldmat og morgunmat auk næturgistingar. Undanfarið hafa verið á milli 10 og 15 gestir í athvarfinu og sjálfboðaliðar annast eldamennsku og hússtörf önnur.

Hælisleitendur sem fengið hafa hér dvalarleyfi eru margir hverjir á vergangi vegna húsnæðiseklu. Rauði krossinn býður þeim ráðgjöf og haft er opið hús tvisvar í viku þar sem þeir koma saman. Aðstæður margra í þeim hópi eru afar erfiðar, sérstaklega þar sem börn og eldra fólk er á ferðinni. Miðað við síðustu mánuði er líklegt að um eða yfir 100 hælisleitendur fái dvalarleyfi hér á landi á árinu.

Njóta ekki veislunnar í hagkerfinu

Hér eru nefndir nokkrir af þeim hópum í samfélaginu okkar sem eru gleymdir. Ekki er fréttnæmt að segja frá þeirra högum enda fæstir þeirra að nýta kosningarétt sinn eða tala sínu máli.

Hægt er að halda áfram að telja upp hópa sem ekki njóta veislunnar í hagkerfinu. Hjúkrunarheimilin sem þjóna elsta og mest veikburða einstaklingum samfélagsins ramba mörg á barmi gjaldþrota. Það er smán.

Getum við sem þjóðfélag ekki einsett okkur að útrýma fátækt og búa heimilislausum betri aðstöðu? Getum við mismunað þeim sem hingað leita á flótta frá stríði, fátækt og náttúruhörmungum?

Fordómar stafa af ótta við hið óþekkta. Fræðumst meira um menningu og trúarbrögð annarra þjóða og þá skiljum við hvert annað betur. Horfumst í augu við heimilislausa Íslendinga og setjum okkur í þeirra spor. Mannréttindi fara ekki í manngreiningarálit né spyrja um vegabréf. Þau eru allra.

Það orðspor sem nú fer af efnahagsuppgangi á Íslandi er gott, okkur hefur tekist með undraverðum hraða að ná aftur fótfestu. En efnahagsundrið má ekki vera bara fyrir suma.

Með stuðningi við samtök eins og Rauða krossinn geta allir lagt sitt að mörkum til að gera samfélagið betra. Stuðningurinn getur verið hvort sem er regluleg fjárframlög, einstök framlög eða stuðningur í formi sjálfboðins starfs.

Verkefnin eru næg.




Skoðun

Sjá meira


×