Innlent

Borgin vill fjölga í skólahljómsveitum

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Biðlistar eftir plássi í skólahljómsveit eru óralangir.
Biðlistar eftir plássi í skólahljómsveit eru óralangir. vísir/Anton brink
„Það er okkar stefna að fjölga plássum í skólahljómsveitum borgarinnar og við vonumst til að geta stigið skref í þá átt strax á næsta starfsári,“ segir Skúli Helgason borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður skóla og frístundaráðs. 

Tæplega fjögur hundruð börn voru á biðlista eftir plássi í skólahljómsveit á síðasta ári.  Í ár stefnir einnig í mikla umframaðsókn. Þar þarf þó að hafa í huga að biðlistarnir tengjast tilteknum hljóðfærum en öðrum ekki. 

Börnum innflytjenda fjölgar í hópi umsækjenda en eitt megin markmið skólahljómsveita er að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. „Við erum í þessum mánuði að hefja vinnu við að móta áherslur og stefnu fyrir fjárhagsáætlun næsta árs og munum taka þessi mál upp í því samhengi. Við erum einnig að vinna að því að greiða úr vanda tónlistarskóla í borginni og hyllir undir niðurstöðu í þau mál sem er mikilvægt til að geta snúið vörn í sókn í þeim málaflokki,“ segir Skúli og segir stefnu borgaryfirvalda skýra. „Við viljum auka aðgengi barna að tónlistarnámi og erum mjög ánægð með starf skólahljómsveitanna eins og tónlistarskólanna í borginni.,“ segir Skúli. Hann segir borgaryfirvöld einnig almennt vakandi fyrir þörfum barna frá ólíkum menningarsvæðum.

„Við fylgjum metnaðarfullri fjölmenningarstefnu borgarinnar og viljum sannarlega sjá að fleiri börn af erlendum uppruna njóti þeirra lífsgæða sem felast í tónlistarnámi, rétt eins og önnur börn,“ segir Skúli.


Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×