Viðskipti innlent

Fyrrverandi bæjarstjóri nýr hafnarstjóri

Sveinn Arnarsson skrifar
Lúðvík Geirsson mun stýra rekstri Hafnarfjarðarhafnar
Lúðvík Geirsson mun stýra rekstri Hafnarfjarðarhafnar
Lúðvík Geirsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, hefur verið ráðinn hafnarstjóri bæjarins. Samþykkti hafnarstjórn á fundi ráðsins í morgun að ráða Lúðvík til starfans.

Valnefnd sem skipuð var til að ráða nýjan hafnarstjóra komst að þeirri niðurstöðu að hann væri hæfastur. „Að mati valnefndarinnar leiðir reynsla, þekking og menntun sem og leiðtoga- og samstarfshæfni Lúðvíks til þess að hann er talinn vera hæfastur umsækjenda í starfið. Önnur gögn, svo sem persónuleikapróf og umsagnir, styrktu það mat enn frekar,“ segir í fundargerð bæjarins. 

Már Svein­björns­son, fráfarandi hafn­ar­stjóri Hafn­ar­fjarðar­hafn­ar, tilkynnti í janúar á þessu ári að hann ætlaði sér að hætta vegna aldurs. Var þá umsvifalaust hafin vinna við að ráða nýjan hafnarstjóra.

Málefni Hafnarfjarðarhafnar voru í kastljósi fjölmiðla á síðasta ári eftir að meirihluti hafnarstjórnar vildi áminna starfsmann hafnarinnar fyrir að hafa sagst hafa farið á fund á laugardegi í ráðhúsi Hafnarfjarðar.

Ekki liggur fyrir hvort að sá fundur hafi átt sér stað en rannsókn fór fram innan Hafnarfjarðarkaupstaðar og málið rannsakað sem öryggismál. Már neitaði á þeim tíma að áminna starfsmanninn persónulega.

Lúðvík Geirsson, nýr hafnarstjóri, hefur komið víða við, verið bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, bæjarstjóri og þingmaður Suðvesturkjördæmis. Hann hefur einnig verið formaður Blaðamannafélags Íslands svo fátt eitt sé talið. 

„Nýja starfið leggst vel í mig,“segir Lúðvík. „Ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Ég tel mig einnig þekkja ágætlega  til hafnarinnar, hef átt sæti í hafnarstjórnum áður og ég hlakka til að vinna með hafnarstjórn, hafnarstarfsmönnum og stjórnendum bæjarins að því að styrkja Hafnarfjarðarhöfn.“


Tengdar fréttir

Enginn kannast við fund í ráðhúsinu

Upphaf símtalamálsins í Hafnarfirði er fundur í ráðhúsi bæjarins 15. nóvember. Hafnarstarfsmaður segist hafa farið á fund og rætt störf Más Sveinbjörnssonar hafnarstjóra.

Ráðuneyti rannsaki mál hafnarstjórnar

Fulltrúar minnihlutans í hafnarstjórn Hafnarfjarðar vilja að innanríkisráðuneytið geri stjórnsýsluúttekt á vinnubrögðum meirihlutans og bæjarstjórans í máli starfsmanns sem var áminntur.

Leyndarhjúpur yfir fundi skoðaður sem öryggismál

Guðni Einarsson hafnarstarfsmaður getur ekki greint frá því hverjir sátu fund með honum. Formaður hafnarstjórnar taldi ástæðu til að skoða hvort starfsmaðurinn hefði brotið af sér í starfi og ætti skilið áminningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×