Lífið

Markús Máni: Deildi blóðugum myndum af sér eftir hjólreiðaslys í Belgíu

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Markús varar aðra hjólreiðakappa í Brussell við því að maður geti aldrei vitað hvenær bílstjórar geri klaufaleg mistök.
Markús varar aðra hjólreiðakappa í Brussell við því að maður geti aldrei vitað hvenær bílstjórar geri klaufaleg mistök. Vísir/Markús Máni
Markús Máni M. Maute lenti í hjólreiðaslysi í Belgíu í vikunni. Bíll ók í veg fyrir hann á hjólabraut í Brussell með þeim afleiðingum að hann skar sig illa á hendi.

Í gærkvöldi deildi Markús myndum af sér á Facebook síðu sinni sem teknar voru af honum stuttu eftir slysið.

Í færslunni sem fylgdi myndunum beindi hann orðum sínum til annarra hjólreiðakappa í borginni þar sem hann býr og hvatti þá til þess að hafa varann á sér. Lokaorð færslunar voru; „Ekki keppa við sjálfan þig, það er ekki þess virði".

 

Markús skar sig illa við áreksturinn auk þess sem hjól hans skemmdist.Vísir/Markús
Á aðeins meiri ferð en á sunnudagsrúntinum

„Það sem var mér að kenna í þessu er að maður hættir stundum að reikna með því að ökumennirnir sjái mann,“ segir Markús Máni fyrrum handboltakappi hjá Val. „Í þessu tilviki var ég kannski á aðeins meiri ferð en maður gerir á sunnudagsrúntinum. Þessi kona í bílnum sá mig ekki og þetta var akkúrat á svona stað þar sem hún tekur sveig fyrir mig.“

Hjól Markúsar skemmdist eitthvað í árekstrinum en til allra lukku slapp hann við beinbrot. Hann segir helstu ástæðu þess að hann póstaði myndunum hafi verið fyrir sig og aðra hjólreiðamenn. Hann vonast til þess að myndirnar skerpi á athyglisgáfu sinni og annarra sem eru í sportinu.

„Þetta var svona „flesh wound“ eins og þeir segja í bíómyndunum. Ég er marinn og skrámaður á fleiri stöðum. Það þurfti að sauma mig svolítið saman en þetta er ekkert sem grær ekki.“

Hjólar 25 kílómetra í vinnuna... og til baka

Markús Máni býr í Brussell en vinna hans er í 25 kílómetra fjarlægð frá heimili hans, rétt fyrir utan borgina. Hann hjólar til og frá vinnu að minnsta kosti tvisvar í viku. Hann vinnur fyrir bandaríska fyrirtækið Cargill sem vinnur meðal annars í matvælaiðnaðinum.

„Inn í Brussell er ekkert sérstakt að hjóla því það er mikil umferð. Þeir eru jú með hjólastíga en eiga enn eftir að gera margt til þess að fullkomna aðstöðuna. Það eru oft miklar umferðateppur í borginni en um leið og þú kemur út fyrir borgina á flæmska svæðið er þetta æði, allt flatt og svona. Það var ástæðan fyrir því að ég tók þetta upp. Ég vinn skrifstofuvinnu og vantaði eitthvað sem myndi þvinga líkamsrækt inn í daginn og þetta er fullkomið. Þú sleppur ekkert fyrr en þú ert búinn að fara alla leiðina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.