Innlent

Sýknaður af ákæru um nauðgun gegn sextán ára stelpu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjölskipaður héraðsdómur taldi ekki sannað að ásetningur hefði legið að baki verknaðinum.
Fjölskipaður héraðsdómur taldi ekki sannað að ásetningur hefði legið að baki verknaðinum. vísir/valli
Karlmaður um tvítugt var í gær sýknaður af ákæru um að hafa notfært sér aflsmuni sína auk ölvunar og svefndrunga stúlku til að hafa samræði við hana gegn hennar vilja. Dómur var kveðinn upp af fjölskipuðum dómi í Héraðsdómi Reykjaness. 

Málsatvik eru þau málsaðilar höfðu verið í partýi hjá vinum þeirra en ungmennin voru öll í sama skóla. Stúlkan sem um ræðir var á þeim tíma sextán ára en drengurinn átján. Ekki kemur fram hvenær þau áttu sér stað en á þeim tíma var karlmaðurinn átján ára gamall. Auk málsaðila var par í íbúðinni að skemmta sér með þeim. Stúlkan, sem hafði verið undir áhrifum áfengis, kannabisefna og MDMA, bar því við að hún hefði vaknað við það að drengurinn var að reyna að hafa samfarir við hana. Hún hafi sagt nei en hann hafi haldið áfram engu að síður. Drengurinn vildi stunda endaþarmsmök en hún ekki. Þegar hún sneri sér við til að varnast þeim hafi hann haft mök við hana um leggöng.

Í framburði ákærða fyrir dómi sagði hann að fyrr um kvöldið hefði hann verið í sambandi við stúlkuna. Hann hafði hringt í hana, sagt að hann langaði að fá hana í heimsókn og bætt við að hann langaði að sofa hjá henni. Stúlkan hafi verið til í það og því hafi hann reddað henni fari til sín.

Þegar hún var kominn afhenti hann henni fíkniefni „sem hún hafi gert sér grein fyrir hver væru“. Í kjölfarið hafi þau öll fjögur sem viðstödd voru farið að kúra og kyssast og strjúka hvort öðru á kynferðislegan hátt. Ákærði bar því við að stúlkan hefði allan tímann verið með meðvitund og ekkert hafi bent til þess að hún hafi ekki viljað stunda kynlíf. Spurður um áverka sem fundust á brotaþola við skoðun á bráðamóttöku sagði hann að á engum tíma hafi stúlkan sýnt merki þess að hún væri að meiða sig en „kynlífið hafi í byrjun verið óþægilegt fyrir bæði af því að hún hafi verið svo þurr“.

Ógeðslega vont og ekkert nema sársauki

Lýsing brotaþola var á annan veg. Hún sagði að hún hefði verið afar drukkin þegar hún mætti til þremenninganna. Eftir að hafa neytt vímuefna og smáskammta af áfengi hafi hún sofnað og vaknað við það ákærði hafi verið að nudda hana. „Það [var] ógeðslega vont [...] og ekki neitt nema sársauki.“ Viðbrögð hennar voru þau að hún varð stjörf af hræðslu, hún hafi farið að gráta og beðið hann um að hætta.

Eftir að samförunum lauk lágu þau hlið við hlið í rúmi sem var í herberginu. Síðar reyktu þau með vinum sínum áður en ákærði ók brotaþola heim. Fram kemur að þau kvöddu hvort annað með kossi. Síðar þann dag kærði brotaþoli vegna nauðgunar.

Stúlkan hefur glímt við mikil eftirköst vegna atviksins. Meðal annars hafi hún hitt félagsráðgjafa 38 sinnum vegna þessa. Félagsráðgjafinn mætti fyrir dóm og sagði að meðferð stæði enn yfir en unnið væri að því að lengja þann tíma sem líður á milli heimsókna.

Í niðurstöðu dómsins sagði að ekkert ósamræmi hafi verið í framburði hins ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi. Nokkuð misræmi hafi hins vegar verið í framburði brotaþola þó það geri hann eigi ótrúverðugan. Til að unnt sé að sakfella fyrir brot gegn almennum hegningarlögum verður að vera til staðar ásetningur eða gáleysi brotamanns. Aðeins er unnt að sakfella fyrir gáleysisbrot sé heimild til þess í lagaákvæðinu. Að mati dómsins þótti ekki sannað að ásetningur hins ákærða hefði verið til staðar.

„Ákærði heldur því fram að brotaþoli hafi tekið þátt í samförunum þótt þær hefðu verið óþægilegar fyrir bæði. Ekki eru nein efni til þess að draga þetta í efa og er þannig ekki útilokað að framburður þeirra beggja, ákærða og brotaþola, sé réttur. Með vísan til alls þessa verður ekki hjá því komist að álykta sem svo að ákærða hafi eins og á stóð haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli hafi verið samþykk atlotum hans og samförunum. Í öllu falli hafi ekki verið fyrir hendi ásetningur til þess að þvinga brotaþola til kynmaka og að ákærða hafi ekki verið það ljóst að brotaþoli væri í þetta sinn andsnúin kynmökunum,“ segir í niðurstöðum héraðsdóms.

Dóminn í heild sinni má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×